Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2012 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra og forsætisráðherra Kína ræða jarðhitamál

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, í Hellisheiðarvirkjun í dag
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, í Hellisheiðarvirkjun í dag


Össur Skarpéðinsson, utanríkisráðherra, bauð Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, til málstofu um jarðhitamál í Hellisheiðarvirkjun í dag. Wen Jiabao er jarðvísindamaður að mennt og hefur mikinn áhuga á jarðhitamálum og samstarfi við Íslendinga á því sviði. Forsætisráðherrann er staddur hér á landi í opinberri heimsókn.

Á málstofunni voru auk ráðherranna, dr. Árný Sveinbjörnsdóttir, Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, dr. Ingvar Birgir Friðleifsson, forstöðumaður jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, kínverskir ráðamenn auk átta erlendra nemenda úr jarðhitaskólanum. Nemendur frá Kenía, El Salvador og Kína höfðu stutta framsögu og sögðu frá jarðhitanýtingu í sínum heimalöndum og námi sínu á Íslandi.

Fram kom í máli forsætisráðherrans að Kínverjar hafi náð miklum árangri í að bæta aðgengi að orku, en þrátt fyrir það sé mikil þörf fyrir bætta orkuþjónustu í landinu. Það sama mætti segja um fjölmörg þróunarríki, þar á meðal í Afríku, og hann meti jarðhita sem mikilvægan þátt í lausn orkuvandans í álfunni. Þá yrðu ríki heims einnig að horfa til loftslagsvandans og virkjun jarðhita væri mikilsverð lausn í því samhengi. Sagði hann að nýting jarðhita eigi eftir að stóraukast og mikilvægi hans sem orkugjafa verða fleirum ljós. Þá þakkaði forsætisráðherrann Íslendingum fyrir framlag sitt til menntunar á vísindamönnum frá Kína við jarðhitaskólann, en 78 Kínverjar hafa numið við skólann frá upphafi.

Í máli sínu lagði utanríkisráðherra meðal annars áherslu á að samvinna þjóðanna í jarðhitamálum sé nú þegar mikilsverð en við gætum unnið enn frekar saman og þannig lagt okkar lóð á vogarskálarnar um nýtingu hreinnar og umhverfisvænnar orku. Þá vísaði hann til samkomulags íslenskra og kínverskra stjórnvalda um samvinnu að jarðhitamálum í þróunarríkjum, sem undirritað var við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu í gær, og sagði það mikilvægan grundvöll framtíðarsamstarfs ríkjanna.

Fleiri myndir frá Hellisheiðarvirkjun í dag má finna á Facebook síðu utanríkisráðuneytisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta