Andagiftir Íslands – Frá fornsögum til skáldsagna
Bókmenntasýningin Andagiftir Íslands – Frá fornsögum til skáldsagna („Fabulous Iceland: From Sagas to Novels”) sem ræðir uppsprettu andagiftar íslenskra bókmennta, opnaði í Lincoln Center s.l. fimmtudag rétt í þann mund sem kvikmyndaröðin Myndir af hjara veraldar – sígildar- og nýjar íslenskar kvikmyndir (Images from the Edge: Classic and Contemporary Icelandic Cinema) opnar, en hún stendur frá 18. - 26. apríl. Pétur Blöndal blaðamaður tók röð viðtal við 23 íslenska höfunda þar sem hann bað þá að lýsa tengslum þeirra við íslenska bókmenntahefð og áhrif hennar á verk þeirra. Afraksturinn er samantekt íslenskrar bókmenntasögu í stuttum viðtölum með portrett ljósmyndum Kristins Ingvarssonar.
Íslensk frásagnahefð nær allt aftur fyrir miðaldir og skín oft skýrt í gegn í íslenskum nútímabókmenntum. Íslendingar hafa náð því að viðhalda bókmenntahefð sinni vegna þess að þeir hafa varðveitt hina íslensku tungu lítið breytta í gegnum aldirnar ásamt geysilegu magni persónulýsinga, sagna, frásagnarhefða og svipmynda sem varðveist hafa í hinum fornu sögum. Í þessum áhrifum er fólgin rík bókmenntahefð fyrir nýja höfunda að vinna úr.
„Það hefur alltaf heillað mig að heyra hvert rithöfundar sækja andagiftina,” segir Pétur Blöndal. „Í íslenskum bókmenntum getur hún teygt sig aftur um nokkrar aldir í fornsögurnar eða til nýliðinnar aldar í verkum nóbelskáldsins, Halldórs Kiljans Laxness. Einnig getur hressandi skemmtanalíf ungra listamanna hafa skipt öllu máli. Það er fjölbreyttur tónn í sögum þessara höfunda frá kynslóð til kynslóðar og vonandi verða þeir nýjum höfundum hvatning.”
Á sýningunni eru 23 íslenskir rithöfundar sem segja sögur af andagift sem bókmenntir veita þeim í stuttum frásögnum undir ljósmyndum þeirra. Þessi sýning veitir gestum innsýn í íslenskar samtímabókmenntir, rætur þeirra og uppruna sem og sjónarhorn á íslensku fornsögurnar. Jafnframt er Reykjavík sem bókmenntaborg UNESCO sérstaklega kynnt á sýningunni svo og er sérstök kynning á handritunummeð tilvísun í alþjóðlega þýðingu þeirra, en þessar merku menjar eru nú skráðar á heimsmenjaskrá UNESCO. Opnun sýningarinnar verður 19. apríl í Frieda and Roy Furman Gallery, Lincoln Center í New York borg.
Iceland Naturally setur sýninguna upp í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið, Reykjavíkurborg og Stofnun Árna Magnússonar með stuðningi frá Icelandair Cargo, Eimskip og Odda. Gert er ráð fyrir að sýningin fari næst til Seattle og þaðan til Kanada og endi í Washington, DC árið 2013.
Tengiliður við fjölmiðla er Hlynur Guðjónsson, ræðismaður og viðskiptafulltrúi í New York, [email protected], 545 7766