Gistinóttum fjölgar um 8,3% milli ára
Það segir sig líklega sjálft að þegar erlendum ferðamönnum fjölgar þá fjölgar að sama skapi gistinóttum á hótelum og gistiheimilum. Þegar tölur um gistinætur árið 2011 eru gaumgæfðar þá sést að þær vorum rúmar 3,2 milljónir og fjölgaði um 8,3% frá fyrra ári. Erlendir ríkisborgarar gistu flestar nætur, þ.e. 75% af heildarfjölda gistinátta, og fjölgaði um 14% milli ára. Gistinóttum Íslendinga fækkaði hinsvegar um 6%.
Eins og mörg undanfarin ár gistu Þjóðverjar hér flestar nætur, þá Bretar og svo Bandaríkjamenn. Gistinóttum Bandaríkjamanna fjölgaði þó hlutfallslega mest milli ára eða um tæp 64%. Næstmest fjölgaði gistinóttum Asíubúa annarra en Japana og Kínverja (51%), þá Kanadamanna (50%) og loks Kínverja (45%). Gistinóttum Austurríkismanna fækkaði hlutfallslega mest eða um 22%, Dana um 5% og Belga 4%.
Flestar gistinætur voru á hótelum og gistiheimilum (70%), á tjaldsvæðum 15% og 6% á farfuglaheimilum. Gistinóttum fjölgaði milli ára á öllum tegundum gististaða nema svefnpokagististöðum og tjaldsvæðum.
Hlutfallslega fjölgaði gistinóttum mest á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu, en einnig varð nokkur fjölgun á Norðurlandi vestra, Suðurlandi og Vesturlandi. Á Austurlandi var fjöldi gistinátta svipaður milli ára. Gistinóttum fækkaði hins vegar á Vestfjörðum og Norðurlandi eystra.
Það er Hagstofan sem heldur utan um talningu á gistinóttum og gefur árlega út samantekt þar um sem má sjá hér.