Hoppa yfir valmynd
23. apríl 2012 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Kynning og opið samráð um frumvarp um breytingar á lögum nr. 3/2003 um opinberan stuðning við vísindarannsóknir

Á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins hefur verið unnið að drögum að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003.


Á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins hefur verið unnið að drögum að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um opinberan stuðning við  vísindarannsóknir, nr. 3/2003. Þau fara nú  í opið samráðsferli með birtingu á vef ráðuneytisins til að gefa öllum kost á að kynna sér efni þeirra og beina athugasemdum sínum og ábendingum til ráðuneytisins. Að því loknu verður farið yfir allar athugasemdir og þær hafðar til hliðsjónar við undirbúning endanlegs frumvarps, sem ráðherra leggur fyrir Alþingi.

Veittur er frestur til að gera athugasemdir við frumvarpsdrögin til  5. maí 2012.

Óskað er eftir að athugasemdir verði settar skilmerkilega fram og með vísan til tiltekinna greina frumvarpsins, þegar það á við. Athugasemdir sendist í tölvupósti á: [email protected] með  efnislínunni: „Breytingar á lögum nr. 3/2003“.

Markmiðið með endurskoðun laganna er að mæta þeim áherslumálum sem koma m.a. fram í stefnu Vísinda- og tækniráðs 2010-2012. Þar að auki er lagt til að gildandi lög verði samhliða þessu tekin til heildstæðrar endurskoðunar og er mælt fyrir um tillögur að breytingum á nokkrum þáttum laganna, sem þykir brýnt að bætt verði úr.

Helstu nýmæli í fyrirliggjandi frumvarpsdrögum:

  1. Rannsóknasjóður og Rannsóknarnámssjóður verði sameinaðir.
  2. Nafni Tækjasjóðs verði breytt í Innviðasjóð og hlutverk hans víkkað svo hann geti styrkt aðra innviði til rannsókna, t.d. gagnagrunna. Fagráð Innviðasjóðs verði skipað.
  3. Markáætlun á sviði vísinda og tækni verði veitt lagastoð og hún sett undir lögin
  4. Formaður vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs verði ekki jafnframt formaður stjórnar Rannsóknasjóðs. Ráðherra skipi formann stjórnar á meðal stjórnarmanna.

Í fyrsta lagi er lagt til að Rannsóknasjóður og Rannsóknarnámssjóður verði sameinaðir. Sameining sjóða myndi leiða til meiri samfellu og yfirsýnar á úthlutunum styrkja til nemanda í rannsóknartengdu framhaldsnámi. Telja má að faglegt mat umsókna til rannsóknartengds framhaldsnáms muni styrkjast, en ekkert fagráð starfar nú við Rannsóknarnámssjóð.

Í öðru lagi er lagt til að heiti Tækjasjóðs verði breytt í Innviðasjóð og hlutverk hans víkkað svo hann geti styrkt aðra innviði til rannsókna, t.d. gagnagrunna. Hlutverk Tækjasjóðs er að veita rannsóknarstofnunum styrki til kaupa á dýrum tækjum og búnaði vegna rannsókna. Tækjasjóður nær þó aðeins til tækja og búnaðar en ekki annarra innviða eins og t.d. gagnagrunna.

Í þriðja lagi er lagt til að Markáætlun á sviði vísinda og tækni verði veitt lagastoð. Markáætlun fellur ekki undir lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003, en er á forræði mennta- og menningarmálaráðherra. Mælt er fyrir um að ráðherra skipi stjórn Markáætlun á sviði vísinda og tækni til þriggja ára í senn. Stjórnin skuli skipuð þremur einstaklingum úr stjórn Rannsóknarsjóðs og þremur einstaklingum úr stjórn Tækniþróunarsjóðs sem skipuð er skv. 12. gr. laga nr. 75/2007.

Í fjórða lagi er lagt til að formaður vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs verði ekki jafnframt formaður stjórnar Rannsóknasjóðs. Ráðgert er að stjórnin verði skipuð fimm einstaklingum og jafnmörgum til vara sem hafi reynslu og staðgóða þekkingu á vísindarannsóknum samkvæmt sérstakri tilnefningu vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs. Þar af skal einn tilnefndur úr vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta