Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2012 Utanríkisráðuneytið

Öll í sama liði

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra
Össur Skarphéðinsson

Í framsöguræðu sinni við upphaf umræðna um utanríkismál í dag sagði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, aðild Íslands að Evrópusambandinu snúast um langtímahagsmuni Íslands. Eitt af meginmarkmiðum aðildar væri að koma á efnahagslegum stöðugleika, auka fjárfestingar og skapa störf fyrir Íslendinga framtíðarinnar. Hann sagði íslenskt efnahagslíf, með öll sín tækifæri, auðlindir til lands og sjávar, vel menntað og kraftmikið fólk, og sterka stöðu á norðurslóðum, enn glíma við innbyggða kerfisgalla sem hefðu um áratugaskeið valdið óstöðugleika og átt sinn þátt í efnahagshruninu haustið 2008. Nú vofi yfir Íslandi snjóhengja í formi ríflega þúsund milljarða króna. Utanríkisráðherra sagði eitt mikilvægasta markmiðið vera að ná samstarfi við Evrópu um afnám gjaldeyrishaftanna og að bræða snjóhengjuna án þess að hún breytist í efnahagslegt hamfarahlaup. Örfáum mánuðum eftir aðild mætti koma íslensku krónunni í skjól með þátttöku í ERM II myntsamstarfinu.

Í umfjöllun um makríldeiluna og málarekstur ESA fyrir EFTA-dómstólnum um Icesave-málið rakti utanríkisráðherra hvernig íslensk stjórnvöld hafa haldið fast á hagsmunum Íslands í þeim málum. Hann sagði bæði mál vera í skýrt skilgreindum farvegi og að kröfur um að slá á frest aðildarviðræðunum við Evrópusambandið vera yfirskot. Hann benti á að erfiðustu andstæðingar Íslands hefðu krafist þess að viðræðunum yrði hætt og spurði utanríkisráðherra hvort við ættum að taka undir kröfur þeirra.

Utanríkisráðherra þakkaði einnig Alþingi fyrir samstarf í stórum málum og vísaði þar til norðurslóðastefnu Íslands og áætlunar um þróunarsamvinnu, sem og til hinnar sögulegu ákvörðunar Alþingis að viðurkenna sjálfstæði Palestínu. Sú samvinna sýndi að þingmenn gætu náð góðri samstöðu um grundvallarutanríkismál. Í lok framsöguræðu sinnar þakkaði ráðherra öllum þeim fjölmörgu Íslendingum sem eru í alþjóðasamstarfi, hvort sem er á sviði mennta eða menningar, viðskipta eða vísinda, og hvatti til samstöðu meðal þings þjóðar um grundvallarhagsmuni Íslands. „Við erum öll í sama liði“, sagði utanríkisráðherra.

Ræðu utanríkisráðherra má finna hér.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta