Viðskipta- og efnahagssamráð við Rússland
Í dag fór fram í utanríkisráðuneytinu samráðsfundur milli Íslands og Rússlands um viðskipta- og efnahagsmál. Slíkir fundir eru haldnir reglulega m.a. til þess að liðka fyrir viðskiptum landanna með gerð viðskiptasamninga. Á þessum fundi var málefnum sem tekin voru upp á fundi Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, og Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í nóvember sl., fylgt eftir sérstaklega.
Á fundinum í dag var rætt um aukið samstarf innan ramma yfirlýsingar um nútímavæðingu á sviði atvinnumála, sem ráðherrarnir undirrituðu á fundi sínum. Yfirlýsingin miðar m.a. að því að stjórnvöld og sérfræðingar í Rússlandi og á Íslandi starfi náið saman á ýmsum sviðum.
Fundarmenn voru sammála um að miklir möguleikar liggi í frekara samstarfi, sér í lagi á sviði nýsköpunar, tækniþróunar og vísinda. Gagnkvæm ánægja ríkti um núverandi samvinnu á sviði orkumála og á sérstökum fundi sem haldinn var á því sviði í gær var ákveðið að rússneskir sérfræðingar á sviði orkumála kæmu til Íslands til náms og þjálfunar í haust. Þá tóku rússnesk stjórnvöld vel í þátttöku á ráðstefnu á vegum íslenska jarðhitaklasans sem haldin verður hér á landi næsta vor.
Enn fremur var tvíhliða efnahags- og viðskiptasamband ríkjanna rætt, en árið 2011 fór 3,1% af vöruútflutningi Íslands til Rússlands. Hefur hann þrefaldast á tveimur árum. Stafar þessi aukning fyrst og fremst af auknum makrílútflutningi til Rússlands en eftir aðild Rússa að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO), sem áætluð er um mitt þetta ár, munu tollar á makríl og síld m.a. lækka um 70%, úr 10% í 3%. Í kjölfar nýgerðs samkomulags um gagnkvæma viðurkenningu á dýraheilbrigðiskröfum hefur kjötútflutningur aukist til Rússlands.
Útistandandi atriði í fríverslunarviðræðum tollabandalags Rússlands, Kasakstans og Belarús við EFTA ríkin voru rædd auk þess sem fulltrúar Íslands gerðu grein fyrir stöðu mála í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið. Rússnesk stjórnvöld gerðu grein fyrir þeirri áætlun sinni að fullgilda aðildarsamning sinn að Alþjóðaviðskiptastofnuninni fyrir 15. júlí næstkomandi.
Á fundinum kynntu nokkur íslensk fyrirtæki fyrirætlanir sínar í Rússlandi.