Hugmyndafræði klúbbhúsa mikilvæg í þjónustu við geðsjúka
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir hugmyndafræðina að baki klúbbhúsa í anda Fountain House hafa borið ferskan andblæ inn í umræðu á Íslandi um geðheilbrigðismál þegar klúbburinn Geysir var stofnaður á Íslandi árið 1999. Ráðherra ávarpaði í dag 12. Evrópuráðstefnu klúbbhúsa sem nú stendur yfir í Reykjavík.
Guðbjartur ræddi um hugmyndafræðina og þróun klúbbhúsastarfsemi víða um lönd frá því að Fountain House var opnað í New York árið 1948. Hann sagði að eflaust hefði hugmyndafræðin þróast í áranna rás en grunnurinn væri sá sami og upphaflega þar sem áhersla er lögð á getu og rétt hvers og eins til virkrar þátttöku í samfélaginu og innihaldsríks lífs þrátt fyrir geðræn veikindi. Í klúbbnum Geysi hefði hugmyndafræðin og áherslurnar verið skýrar frá upphafi. Ekki væri litið á fólk sem sjúklinga, allir sem þar komi og taki þátt í starfinu séu jafnir, enda hvorki um meðferðar- né endurhæfingarstofnun að ræða heldur nokkurs konar brú milli stofnunar og samfélags þar sem starfið byggist á samhjálp félaganna og starfsfólksins. Guðbjartur sagðist hafa heyrt margar reynslusögur fólks sem notið hefði starfsins hjá Geysi og fullyrt að þar hefði það fundið sér tilgang og festu í lífinu sér til ómetanlegs gagns í baráttu sinni við geðræn veikindi.
Guðbjartur vék að því hvernig hugmyndafræði klúbbhúsanna hefði breiðst út um allan heim frá stofnun þess fyrsta í New York og sagði athyglisvert að sjá hvernig þessi starfsemi gæti skotið rótum í mismunandi jarðvegi ólíkra þjóða. Svarið lægi í því að byggt væri á sammannlegum gildum sem væru hafin yfir þann mun á milli manna sem annars er tengdur landamærum, þjóðerni, kynþáttum og ólíkri menningu.