Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Kjararýrnun í kreppunni langminnst hjá lágtekjufólki

Stefán Ólafsson prófessor kynnir efni skýrslunnar á fréttamannafundi í velferðarráðuneytinu
Stefán Ólafsson prófessor kynnir efni skýrslunnar á fréttamannafundi í velferðarráðuneytinu

Aðgerðir stjórnvalda til að verja lágtekju- og millitekjufólk fyrir áhrifum kreppunnar hafa skilað tilætluðum árangri. Árin 2008-2010 rýrnuðu kjör lágtekjufólks um 9% á móti 38% rýrnun hjá hæsta tekjuhópnum. Botni kjaraskerðingar var náð árið 2010, nú eykst hagvöxtur og kaupmáttur fólks og einkaneysla sömuleiðis. Þetta er meðal þess sem fram kemur í viðamikilli greiningu sem Þjóðmálastofnun Háskóla Íslands vann fyrir velferðarráðuneytið.

Hruni fjármálakerfisins á Íslandi fylgdi efnahagskreppa sem er önnur stærsta samdráttarkreppa lýðveldistímans. Einkaneysla dróst meira saman en áður eru dæmi um á lýðveldistímanum og kjaraskerðing heimilanna varð sú mesta sem orðið hefur frá því samræmdar mælingar hófust árið 1955. Það sem einkum orsakaði kjaraskerðinguna var mikið gengisfall krónunnar og verðbólga sem hlaust af því.

Framkvæmd kreppuúrræða á Íslandi er ólík aðgerðum margra annarra vestrænna ríkja, s.s. Bandaríkjanna, Bretlands og Írlands segir í greiningarskýrslunni. Samanburður við Írland sýnir að þar lögðust byrðar kreppunnar af mestum þunga á tekjulægstu hópana en hátekjuhópunum var hlíft. Í hæsta tekjuhópi Íra jukust ráðstöfunartekjur um 8% meðan þær drógust saman um 26% hjá lægsta tekjuhópnum.

Velferðarstefna í verki

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir niðurstöður greiningarinnar sýna ótvírætt að með velferðarstefnu stjórnvalda hafi tekist að dreifa byrðum kreppunnar á mun réttlátari hátt en víðast annars staðar, verja tekjulægri hópana og sporna við jafn umfangsmiklu atvinnuleysi og víðast varð raunin hjá öðrum þjóðum: „Eins og skýrsluhöfundar benda á jókst ójöfnuður á Íslandi stöðugt á árunum 1995-2007 og eru engin fordæmi fyrir því að tekjuójöfnuður hafi aukist jafn ört og mikið annars staðar á Vesturlöndum allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Ráðstöfunartekjur hæstu tekjuhópanna jukust langt umfram tekjur annarra og hátekjufólk hagnaðist mikið á bóluhagkerfinu. Skattbyrði hátekjuhópa lækkað stöðugt á þessu tímabili en hjá fólki með lágar og meðaltekjur jókst hún mikið allt til ársins 2004. Nú hefur þetta snúist við. Markmið okkar hefur verið að verja velferðina og auka jöfnuð í samfélaginu. Þetta hefur okkur tekist betur en flestum öðrum þjóðum þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður.“

Bótakerfið og skattkerfið nýtt til að auka jöfnuð

Þróun skattbyrðiÞær aðgerðir stjórnvalda sem helst hafa varið kjör lægri tekjuhópa fólust einkum í hækkun lágmarksframfærslutryggingu almannatrygginga og hækkun vaxtabóta og atvinnuleysisbóta, jafnframt því sem skattbyrði fólks í millitekju- og lágtekjuhópum var lækkuð meðan hún var aukin hjá fólki í hærri tekjuhópunum. Tekjuskattbyrði í kreppunni hækkaði hjá um 40% fjölskyldna, þ.e. hærri tekjuhópunum en stóð í stað eða lækkaði hjá sex af hverjum tíu fjölskyldum, þ.e. lægri- og millitekjuhópum. Skýrsluhöfundar benda einnig á áhrif kjarasamninga um hækkun lægstu launa árið 2009, hækkun almennra launa árið 2010 og áhrif úrræða í atvinnumálum, menntunarmálum og vinnumarkaðsúrræða til að draga úr umfangi atvinnuleysis.

Botninum náð og bati hafinn

Þróun kaupmáttarSamdráttur þjóðarframleiðslu á Íslandi árin 2008-2010 var sá fimmti mesti á Vesturlöndum á eftir Eystrasaltslöndunum og Írlandi, sama átti við um samdrátt einkaneyslu sem var um 20%. Þá var meðalrýrnum kaupmáttar ráðstöfunartekna hér á landi með því allra mesta sem gerðist í Evrópu, einkum vegna gengisfalls krónunnar. Atvinnuleysi varð hins vegar almennt minni vandi hér á landi en víðast annars staðar; náði hámarki árið 2009 í tæplega 9% en var um 7% við árslok 2011. Skýrsluhöfundar segja þetta mikinn árangur í ljósi þess hve hrunið var mikið og samdrátturinn í kjölfar þess, ásamt skuldavanda hins opinbera, heimila og fyrirtækja.

Um mitt ár 2010 virðist botni kreppunnar hafa verið náð en þá tók kaupmáttur launa að aukast á ný og jókst frá febrúar 2011-2012 um 4,6% sem er mesta hækkun frá árinu 2000. Hagvöxtur hér á landi var árið 2011 sá áttundi mesti á Vesturlöndum, atvinnuleysi hefur minnkað og einkaneysla aukist stöðugt frá miðju ári 2010.

Höfundar skýrslu Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands um umfang kreppunnar og afkomu ólíkra tekjuhópa eru Stefán Ólafsson prófessor og Arnaldur Sölvi Kristjánsson hagfræðingur. Þetta er fyrri skýrslan af tveimur um áhrif fjármálakreppunnar á lífskjör þjóðarinnar. Seinni skýrslan er væntanleg innan tíðar og verður þar fjallað um skuldavanda, fjárhagsþrengingar heimila og hvernig lágtekjuhópum hefur reitt af í kreppunni. 

Velferðarráðuneytinu
30. apríl 2012

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta