Kveikjan virkar ... frumkvöðlasetur með góða kaffivél!
Frumkvöðlasetrið Kveikjan í Hafnarfirði hefur fyrir löngu sannað gildi sitt sem framúrskarandi vettvangur fyrir frumkvöðlafyrirtæki sem eru við það að ná flugi. Í dag hljóp á snærið hjá frumkvöðlasetrinu þegar starfsemin var flutt formlega í nýtt húsnæði að Strandgötu 31 sem er þrisvar sinnum stærra en það gamla. Alls eru ellefu sprotafyrirtæki starfandi í Kveikjunni og flest eru þau tækni- og þjónustufyrirtæki. Það er alveg ljóst að það er von á góðu frá Kveikjunni!
Líkt og í öðrum frumkvöðlasetrum þá byggir hugmyndafræði Kveikjunnar á því að safna saman á einn stað frumkvöðlafyrirtækjum sem fá hvoru tveggja mjög góða aðstöðu á vægu gjaldi og faglegan stuðning, ráðgjöf og tengslanet. Úr verður mjög skapandi umhverfi og krafturinn sem myndast felst ekki síst í því að fyrirtækin eru öll á svipuðum stað á þróunarbrautinni og áskoranirnar sem þau standa fyrir eru um margt líkar. Það er því ekkert skrök þegar sagt er að kaffivélin sé miðpunkturinn í starfi frumkvöðlasetranna – þar hittast allir og þar gerast hlutirnir! Til að fá aðstöðu í Kveikjunni verða frumkvöðlarnir að hafa góða viðskiptahugmynd sem hefur sérstöðu – og er um leið ekki í beinni samkeppni við önnur íslensk fyrirtæki.
Kveikjan er rekin af Nýsköpunarmiðstöð Íslands í miklu og góðu samstarfi við Hafnarfjarðarbæ og Garðabæ.