Hoppa yfir valmynd
3. maí 2012 Utanríkisráðuneytið

Samningsafstaða Íslands í köflum 1 og 14 birt

Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands
Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands

Samningsafstaða Íslands varðandi flutningastarfsemi annars vegar og frjálsa vöruflutninga hins vegar í samningaviðræðum Íslands og Evrópusambandsins hefur verið birt á heimasíðu viðræðnanna - viðræður.is. Hún var send framkvæmdastjórn ESB og aðildarríkjunum eftir að um hana hafði verið fjallað í viðkomandi samningahópum, samninganefnd Íslands og utanríkismálanefnd Alþingis, og hún samþykkt í ráðherranefnd og ríkisstjórn. Búist er við því að viðræður hefjist í viðkomandi málaflokkum síðar á þessu ári. Kaflar 1 og 14 heyra báðir undir EES-samninginn.

Í samningsafstöðu Íslands í kafla 1 um frjálsa vöruflutninga kemur fram að kaflinn snýr að fjórfrelsi innri markaðarins og fellur því að öllu leiti undir EES-samninginn. Ísland leggur áherslu á að viðhalda reglum varðandi hámarksgildi kadmíums í áburði. Þá leitast Ísland eftir því að opna fyrir samstarf við önnur ríki um markaðsleyfi fyrir lyf og fá undanþágu frá tungumálakröfum vegna fylgiseðla til að auðvelda aðgengi að lyfjum sem notuð eru í litlu magni.

Í samningsafstöðu Íslands um kafla 14 um flutningastarfsemi koma m.a. fram óskir Íslands um að tillit verði tekið til sérstakra aðstæðna í flugrekstrarumhverfi landsins ásamt því að fá að halda aðlögun vegna fjármögnunarsamningsins um flugumferðaþjónustu á Norður Atlantshafi. Einnig er óskað eftir heimildum til að styrkja innanlandsflug, að Ísland þurfi ekki að framkvæma tilskipun um sumartímam, og farið er fram á afmarkaðar sérlausnir vegna aksturs- og hvíldartíma ökumanna. Ísland hefur samið, eða er í samningaviðræðum, um ofangreind atriði á vettvangi EES en mikilvægt er að semja um þau sérstaklega í aðildarviðræðunum.

Samningaviðræðurnar um aðild Íslands að Evrópusambandinu snúast um 33 kafla í regluverki ESB, auk kafla um stofnanir og annað. Alls hafa 15 samningskaflar verið opnaðir frá því að efnislegar aðildarviðræður hófust í júní á síðasta ári og er samningum þegar lokið um 10 þeirra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta