Hoppa yfir valmynd
3. maí 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Styrkir til eflingar starfsmenntunar 2012-2013

Mennta- og menningarmálaráðuneyti auglýsir eftir umsóknum um styrki til að efla starfsmenntun samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar um átakið Nám er vinnandi vegur.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti auglýsir eftir umsóknum um styrki til að efla starfsmenntun samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar um átakið Nám er vinnandi vegur. Styrkjunum er ætlað að efla starfstengt nám á framhalds- og háskólastigi og í framhaldsfræðslu. Til úthlutunar eru 240 milljónir króna. Veittir verða styrkir til verkefna í eftirfarandi málaflokkum.

  1. Hagnýting og þróun stuttra starfsnámsbrauta á framhaldsskólastigi í ólíkum starfsgreinaflokkum eða starfssviðum. Styrkir verða veittir bæði til endurskoðunar/hagnýtingar á fyrirliggjandi námsbraut eða til þróunar nýrrar. Forgangs njóta þau verkefni sem byggja á samstarfi milli framhaldsskóla, framhaldsfræðsluaðila og atvinnulífs. Einnig er æskilegt að brautirnar séu byggðar upp í anda grunnþátta aðalnámskrár og styðji við nýsköpun.
  2. Þróun sérhæfðs námsframboðs til þess að byggja ofan á færni og þekkingu til starfa á nýjum sviðum, t.d. frá einni starfsgrein til annarrar, og fyrir hópa með sérþarfir.
  3. Þróun námsbrauta í starfsnámi á 4. þrepi viðmiðaramma aðalnámskrár framhaldsskóla. Brautirnar skulu annað hvort vera skipulagðar sem sjálfstætt framhaldsnám við starfsnám eða sem brú milli námsloka í starfsnámi/listnámi inn á tilheyrandi fræðasvið á háskólastigi þar sem gert er ráð fyrir að einingar komi til styttingar á tilteknu námi á háskólastigi. Skilyrði er sett um samstarf viðurkenndra framhaldsskóla, háskóla og fyrirtækja eða stofnana.
  4. Greining á þörf mismunandi hópa, landssvæða eða greina atvinnulífs fyrir starfsmenntun.

Vinna við styrkt verkefni skal fara fram skólaárið 2012-2013. Verkefnin skulu vera raunhæf og í takt við stefnu nýrra laga um menntamál. Við uppbyggingu námsbrauta verður að hafa hliðsjón af viðeigandi lögum og námskrám. Miðað er við að styrkja sem flesta starfsgreinaflokka/starfssvið og er gert ráð fyrir að hámarksstyrkur sé kr. 2.000.000 á námsbraut. Afurðir verkefna verða birtar í námskrárgrunni og á vef eftir því sem við á.

  • Sótt er um á umsóknareyðublöðum á vef ráðuneytisins.
  • Umsóknir sendist mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Sölvhólsgötu 4, 150 Reykjavík eða á netfangið [email protected]
  • Umsóknarfrestur til 4. júní 2012 


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta