Bretar kunna vel að meta Ísland í apríl
Apríl var enn einn metmánuðurinn í komu erlendra ferðamanna og fjölgaði þeim um 5.000 frá apríl í fyrra eða um 16,5%. Á því ellefu ára tímabili sem Ferðamálastofa hefur talið ferðamenn í Leifsstöð hefur aukningin verið að jafnaði 8,2% milli ára í aprílmánuði.
Þegar skoðaður er topp 10 listinn yfir það frá hvaða löndum ferðamennirnir eru sést að Bretar eru langfjölmennastir, eða 22,4%. Bandaríkjamenn hreppa bronsið með 11,8% af heildarfjöldanum og Norðmenn eru bronsverðlaunahafar en þaðan komu 10,3% ferðamannanna.
Síðan koma löndin eitt af öðru og flest eru þau næstu nágrannar að undanskildum Kanadamönnum; Danir voru 7,6%, Svíar 7,0%, Þjóðverjar 6,8%, Frakkar 5,9%, Kanadamenn 3,4%, Hollendingar 3,1% og Finnar 2,9%. Samtals voru þessar tíu þjóðir 81,2% af heildarfjölda ferðamanna í apríl.
Frá áramótum hafa 125.333 erlendir ferðamenn farið frá landinu sem er 20,4% aukning frá árinu áður. Tæplega helmingsaukning (45,9%) hefur verið í brottförum Breta, ríflega fjórðungsaukning (27,7%) í brottförum N-Ameríkana og um fimmtungsaukning (21,8%) frá löndum sem flokkast undir ,,Annað”. Brottförum Norðurlandabúa hefur fjölgað um 8,0% en fjöldi Mið- og S-Evrópubúa hefur hins vegar staðið í stað.
Sjá nánar á vef Ferðamálastofu