Fjárfestingarsamningur vegna nýfjárfestingar í ferðaþjónustu á Grímsstöðum á Fjöllum kynntur í ríkisstjórn
Á ríkisstjórnarfundi í morgun kynnti Oddný G Harðardóttir, iðnaðarráðherra fjárfestingarsamning sem nefnd um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi leggur til að gerður verði vegna uppbyggingar ferðaþjónustu á Grímsstöðum á Fjöllum, enda uppfylli fjárfestingarverkefnið þau skilyrði sem tilgreind eru í lögum nr. 99/2010.
Um er að ræða ferðaþjónustuverkefni óstofnaðs íslensks félags, Zhongkun Grímsstaðir ehf., en það félag er í eigu Bejing Zhongkun Investment Group Co., Ltd. Hið síðarnefnda félag er hlutafélag skráð í Peking í Kína, stofnað árið 1995, sem sérhæfir sig í ferðaþjónustu og fasteignaviðskiptum. Markmið fjárfestingarverkefnisins er að byggja upp ferðaþjónustu á Íslandi fyrir nýjan markhóp ferðamanna. Verkefnið snýst um að byggja allt að 100 herbergja 5 stjörnu hótel, auk 100 herbergja fjölskylduhúsa, ásamt tengdri ferðaþjónustu og afþreyingu á borð við kynnisferðir, náttúruskoðun, hestamennsku, laugar, golf og aðra útivist. Gert er ráð fyrir að landsvæði undir starfsemina verði á bilinu 2-300 hektarar og að gerður verði langtíma leigusamningur þar um. Heildarfjárfesting er áætluð 16,2 milljarðar á næstu fimm árum og gert er ráð fyrir að starfsmenn á undirbúningstíma verði 400-600 og 400 þegar rekstur er að fullu hafinn. Fjármögnun verkefnisins verður að fullu með eiginfé móðurfélagsins Bejing Zhongkun Investment Group Co., Ltd. en stjórnarmaður og aðaleigandi þess félags er Huang Nubo.
Fyrir liggja arðsemisútreikningar frá Íslandsstofu sem sýna að nýfjárfestingin sé þjóðhagsleg hagkvæm út frá hagsmunum íslensks efnahagslífs og samfélags, t.d. út frá atvinnusköpun, byggðaþróun, útflutningi, skatttekjum, nýsköpun og aukinni þekkingu.