Frekari yfirferð gagna og viðtöl hjá starfshópi um Guðmundar og Geirfinnsmál
Starfshópnum var falið að fara yfir málið í heild sinni en sérstaklega þá þætti sem snúa að rannsókn þess og framkvæmd rannsóknarinnar.
Þegar hefur umfangsmikil vinna farið fram varðandi gagnaöflun frá opinberum stofnunum. Starfshópurinn hefur einnig brugðist við erindum einstaklinga sem hafa sett sig í samband við hópinn og móttekið margs konar gögn og upplýsingar. Þá hefur starfshópurinn tekið á þriðja tug viðtala og áformar frekari viðtöl.
Frekari yfirferð og úrvinnsla gagna og upplýsinga fer fram á næstu vikum og mánuðum og gerir starfshópurinn ráð fyrir að skila innanríkisráðherra áfangaskýrslu sinni eigi síðar en 1. nóvember.
Starfshópinn skipa Arndís Soffía Sigurðardóttir lögfræðingur, Haraldur Steinþórsson lögfræðingur og Jón Friðrik Sigurðsson yfirsálfræðingur, auk þeirra hefur Valgerður María Sigurðardóttir, lögfræðingur í innanríkisráðuneytinu, unnið náið með starfshópnum.