Fundur utanríkisráðherra Norðurlandanna í Stafangri
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sat í dag fund utanríkisráðherra Norðurlandanna í Stafangri. Á fundinum fjölluðu ráðherrarnir um aukið samstarf ríkjanna á sviði netöryggis, sem er mikilvægur þáttur í samstöðuyfirlýsingu Norðurlandanna sem samþykkt var á fundi þeirra í Helsinki fyrir rúmlega ári. Ráðherrarnir fylgdu einnig eftir ákvörðun sinni um stóreflt samstarf um rekstur sendiráða en áætlun um það til lengri tíma er í smíðum.
Undirbúningur leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins sem fram fer í Chicago síðar í mánuðinum var til umfjöllunar, sem og samstarf Norðurlandanna í öryggis- og varnarmálum. Náin samvinna Norðurlandanna á því sviði er mikilsvert framlag til að tryggja öryggi í okkar heimshluta og á alþjóðavísu. Ráðherrarnir sammæltust um að halda á lofti áherslum tengdum ályktun 1325 um konur, frið og öryggi á vettvangi bandalagsins.
Ráðherrarnir lýstu stuðningi við friðarumleitanir Kofi Annan í Sýrlandi. Sögðu þeir sýrlensk stjórnvöld verða að stöðva ofbeldisverk sín, draga herlið sitt til baka og tryggja aðgengi fyrir mannúðaraðstoð í landinu. Norðurlöndin munu áfram eiga náið samráð um málefni Sýrlands, meðal annars innan svokallaðs vinahóps Sýrlands.
Á fundinum komu fram áhyggjur af þróun mála í Úkraínu og hvöttu ráðherrarnir þarlend stjórnvöld til að framfylgja alþjóðlegum mannúðarlögum og virða mannréttindi. Þá ræddu ráðherrarnir jákvæða stjórnmálaþróun í Myanmar og vilja Norðurlanda til að efla tengsl við landið og veita því stuðning, svo sem á sviði stjórnarfarsumbóta, í félagsmálum, auðlindamálum og á sviði dómsmála.
Ráðherrarnir undirstrikuðu að Norðurlöndin muni halda áfram að vinna í sameiningu að framgangi jafnréttis og kvenfrelsis á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og í alþjóðastarfi almennt.
Sameiginlega fréttatilkynningu Norðurlandanna frá fundinum má lesa hér (á ensku).