Hoppa yfir valmynd
4. maí 2012 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra gagnrýnir öryggisráðið fyrir aðgerðarleysi í Palestínumálinu

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna í Stafangri
Utanríkisráðherrar Norðurlandanna í Stafangri

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, tók í morgun þátt í opinni umræðu utanríkisráðherra Norðurlandanna um arabíska vorið fyrir fullu húsi í menningarhúsinu í Stafangri í Noregi. Ráðherra gagnrýndi öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fyrir aðgerðarleysi í málefnum Palestínu en umsókn Palestínumanna um aðild að Sameinuðu þjóðunum hefur setið föst í ráðinu síðan í haust. Þá hefur ráðið ekki þegið boð Abbas, forseta Palestínu, um heimsókn á svæðið.

Utanríkisráðherra sagði jafnframt að það sýndi mikinn veikleika Sameinuðu þjóðanna að geta ekki tekið á málum ríkis eins og Palestínu þar sem frelsi og mannréttindi væru tekin af fólki. Hann kallaði einnig eftir virkari aðgerðum af hálfu Evrópusambandsins til lausnar á Palestínumálinu. Hann setti stöðuna í Palestínu í samhengi við arabíska vorið og sagði lausn á málinu vera lykilinn að trúverðugri lýðræðisþróun á svæðinu. Hann sagðist viss um að stuðningur við sjálfstæði Palestínu væri jafn sterkur meðal almennings á hinum Norðurlöndunum og á Íslandi en íslensk stjórnvöld viðurkenndu sjálfstæði Palestínu í desember s.l.

Ráðherra sagði Íslendinga styðja þvingunaraðgerðir gegn Íran vegna kjarnorkuáætlunar landsins. Með sama hætti gæti alþjóðasamfélagið beitt sér af afli gegn landnemabyggðum Ísraela á Vesturbakkanum en ísraelsk stjórnvöld hafa veitt leyfi fyrir þremur nýjum landnemabyggðum á síðustu vikum. Bygging þeirra brýtur í bága við alþjóðalög.

Utanríkisráðherra lýsti einnig mikilvægi þess að Norðurlöndin, sem kyndilberar mannréttinda, beittu sér af afli fyrir mannréttindum og jafnréttismálum í Miðausturlöndum og Norður Afríku þar sem þróunin í jafnréttismálum hafi verið neikvæð á síðustu misserum. Norðurlöndin eigi að vera í fararbroddi þeirra sem berjast fyrir réttindum kvenna í arabaríkjunum og á alþjóðavettvangi almennt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta