Aldrei fleiri útlendingar sofið á Íslandi í marsmánuði
Hagstofan telur samviskusamlega gistinætur á hótelum á Íslandi og í marsmánuði voru þær alls 134.000 samanborið við 97.300 í mars 2011. Erlendir gestir eru 77% af heildarfjöldanum og festu þeir alls 103.000 þúsund sinnum næturblund á brá. Það er fjölgun um hvorki meira né minna en 45%! Íslenskum hótelgestum fjölgaði jafnframt milli ára og voru þeir rúmlega 30.000
Gistinóttum á hótelum fjölgaði í öllum landshlutum; á höfuðborgarsvæðinu voru ríflega 104.300 gistinætur í mars sem er fjölgun um tæp 40% frá fyrra ári. Gistinætur á Suðurlandi voru 13.100 og fjölgaði um 42%. Á Norðurlandi voru tæplega 6.400 gistinætur á hótelum í mars sem er um 25% aukning samanborið við mars 2011. Gistinætur á Suðurnesjum voru um 5.100 sem jafngildir ríflega 15% aukningu frá fyrra ári. Á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða voru gistinætur á hótelum 3.100 í mars og fjölgaði um 61%. Á Austurlandi fjölgaði gistinóttum um 5%, voru 2.050 samanborið við 1.950 í mars 2011.
Hagstofan vekur athygli á að tölurnar ná eingöngu til hótela sem opin eru allt árið þannig að til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.