Er íslenska forsenda þátttöku í samfélaginu?
Teymi um málefni innflytjenda efnir til morgunverðarfundar á Grand Hótel 9. maí næstkomandi þar sem fjallað verður um þá spurningu hvort íslenska sé forsenda fyrir þátttöku í samfélaginu og leitast við bregða faglegu og persónulegu ljósi á þetta umfjöllunarefni.
Er íslenska forsenda þátttöku í samfélaginu?
Morgunverðarfundur Teymis um málefni innflytjenda
Haldinn í Setrinu, Grand Hótel, 9. maí kl. 8:30-10:00
Oft er sagt að tungumálið sé lykillinn að íslensku samfélagi en það sé fyrst og fremst vegna þess að innflytjendur tali ekki íslensku sem þeir séu ekki viðurkenndir sem fullir þátttakendur í samfélaginu. En er það svo að þegar innflytjandi hefur náð góðum tökum á íslensku þá standi honum allar dyr opnar? Margt bendir til þess að þótt tungumálið sé líklega augljósasta hindrunin þá taki aðrar við þegar hún er úr veginum. TEYMI UM MÁLEFNI INNFLYTJENDA stendur fyrir morgunverðarfundi á Grand Hótel miðvikudaginn 9. maí næstkomandi kl. 8:30-10:00 en þar verður leitast við að varpa bæði faglegu og persónulegu ljósi á þessa spurningu.
Gerður Gestsdóttir talsmaður teymisins setur fundinn og er jafnframt fundarstjóri, Ari Klængur Jónsson starfsmaður Fjölmenningarseturs flytur erindi sem hann kallar „Er tungumálið lykillinn?“, Anna Katarzyna Wozniczka segir frá niðurstöðum rannsóknar á pólskumælandi grunnskólanemendum í erindi sem hún kallar „ Að tala eða ekki tala, er það spurningin?“ og Óskar Dýrmundur Ólafsson hverfisstjóri Breiðholts fjallar um samfélagslega þátttöku í erindi sem hann nefnir „Að vera hluti af samfélagi“ . Þá deila þau Michalina Joanna Konstancja Skiba, Juan Camilo Roman Estrada og Cinzia Fjóla Fiorini reynslu sinni af því að tilheyra íslensku samfélagi og fjalla um efni fundarins frá sínum bæjardyrum. Fundinum lýkur með samræðu í pallborði á milli frummælenda og fundargesta.
TEYMI UM MÁLEFNI INNFLYTJENDA er samráðsvettvangur stofnana ríkis og sveitarfélaga, fyrirtækja og frjálsra félagasamtaka sem vinna að málefnum innflytjenda. Helstu hlutverk teymisins eru að vekja athygli á málaflokknum og stöðu innflytjenda, draga úr fordómum gagnvart innflytjendum, vinna að málefnum hópa s.s. eins og hælisleitenda og flóttafólks og standa fyrir viðburðum. Teymið hefur starfað frá árinu 1995.
Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir, aðgangseyrir er kr. 2.100 og er morgunverður innifalinn.