Fjárfestingarsamningur vegna stálendurvinnslu á Grundartanga
Oddný G Harðardóttir, iðnaðarráðherra og fulltrúar GMR Endurvinnslunnar ehf. undirrituðu í dag fjárfestingarsamning vegna stálendurvinnslu á Grundartanga. Samningurinn byggir á lögum nr. 99/2010 um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi og er þetta fimmti fjárfestingarsamningurinn sem gerður er á grundvelli þessara laga.
GMR Endurvinnslan mun endurvinna brotamálma sem falla til við ýmsa framleiðslu á Íslandi og framleiða úr þeim nýtanlegt hráefni. Fyrst og fremst er um að ræða endurvinnslu á stáli sem fellur til við rekstur hérlendra álvera. Hráefnið nýtist m.a. áliðnaði á Íslandi auk þess sem markaður er fyrir það erlendis. Félagið GMR Endurvinnslan ehf. er í eigu íslenskra aðila og er Strokkur Energy stærsti hluthafinn. Áætlanir ganga út á að framleiða 30.000 tonn af endurunnu stáli. Allir samningar um fjármögnun og búnað eru frágengnir. Gert er ráð fyrir að félagið hefji rekstur í nýju verksmiðjuhúsnæði á Grundartanga í desember 2012. Heildarfjárfestingarkostnaður er 10,2 milljónir evra og gert er ráð fyrir 20 starfsmönnum í fullu starfi. Orkuþörfin er 6,5 MW og er sú orka til staðar í raforkukerfinu. Samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar er verkefnið ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Möguleiki er á að auka framleiðslugetu verksmiðjunnar umtalsvert vegna umsvifa á alþjóðlegum markaði.
Fyrir liggja arðsemisútreikningar frá Íslandsstofu sem sýna að stálendurvinnslan sé þjóðhagslega hagkvæm út frá hagsmunum íslensks efnahagslífs og samfélags, t.d. út frá atvinnusköpun, byggðaþróun, útflutningi, skatttekjum, nýsköpun og aukinni þekkingu.