Hoppa yfir valmynd
8. maí 2012 Utanríkisráðuneytið

Alþjóðlegt námskeið á sviði mannúðaraðstoðar

Þátttakendur á OCHA námskeiðinu
Þátttakendur á OCHA námskeiðinu


Utanríkisráðuneytið stendur fyrir alþjóðlegu námskeiði um öflun, vinnslu og miðlun upplýsinga á neyðarsvæðum dagana 7.-11. maí 2012 í samvinnu við Skrifstofu fyrir samræmingu mannúðaraðstoðar hjá Sameinuðu þjóðunum í  Genf  (OCHA, Office for the Coordination of Humanitarian Affairs). Þátttakendur koma frá samstarfsaðilum OCHA, en hlutverk OCHA er að sjá um samræmingu aðgerða allra stofnana Sameinuðu þjóðanna og annara samtaka, sem taka þátt í neyðar- og hjálparstarfi á þeim stöðum þar sem þessir aðilar eru að störfum. Íslenska friðargæslan hefur umsjón með námskeiðinu, en í gildi er samstarfssamningur á milli Friðargæslunnar og OCHA um útvegun sérfræðinga til skammtímastarfa á vegum stofnunarinnar. Friðargæslan hefur einnig sent sérfræðinga til þjálfunar á námsskeiðum OCHA. 
 

Tilgangur námskeiðsins er að þjálfa fólk til starfa á starfsstöðvum OCHA, en á undanförnum árum hafa þarfir OCHA fyrir upplýsingastarf farið hraðvaxandi. Iðulega getur OCHA ekki mætt þessum þörfum, einkanlega þegar setja þarf upp samræmingarskrifstofu vegna neyðar- eða mannúðarhjálpar í skyndi. Því reiðir OCHA sig í auknum mæli á skammtímahjálp frá samstarfsaðilum. Til að sú hjálp komi að sem mestu gagni, þarf að tryggja að það fólk, sem kemur til starfa fyrir OCHA, hafi sameiginlegan grunn að byggja á, bæði hvað varðar þekkingu og starfsaðferðir.


Haldin verða tvö námskeið með sameiginlegum kjarna og fara þau fram samhliða. Annað  námskeiðið snýst um öflun og vinnslu upplýsinga (Stand-by Partner Information Management Training Course) og hitt um samantekt og miðlun upplýsinga (Stand-by Partner Public Information and Reporting Training).


Þetta er í fyrsta sinn sem samstarf er við OCHA um námskeiðshald á Íslandi. Alls eru þátttakendur 23, þar af 4 íslenskir, m.a. frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu,  auk 6 leiðbeinenda frá OCHA.

Fleiri myndir frá námskeiðinu má finna á Facebook síðu utanríkisráðuneytisins

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta