Átakið hjólað í vinnuna hafið
Heilsu- og hvatningarátakið hjólað í vinnuna hófst í morgun. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra var meðal þeirra sem fluttu ávarp þegar átakinu var hleypt af stað í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardal í Reykjavík ásamt Katrínu Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, og Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra.
Aðalstyrktaraðili Hjólað í vinnuna er Valitor en aðrir samstarfsaðilar eru: embætti landlæknis, umhverfissvið Reykjavíkurborgar, Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn, Rás 2, Landssamtök Hjólreiðamanna, Örninn, Advania, Kaffitár og Ölgerðin.
Ráðherrar hvöttu í ávörpum sínum til þess að menn huguðu að öðrum samgöngumáta en bílnum og nefndu þá viðhorfsbreytingu sem orðið hefði bæði með auknum hjólreiðum og notkun almenningssamgangna og í þeirri áherslu sem samgöngu- og sveitarstjórnaryfirvöld leggja með sífellt fleiri göngu- og hjólreiðastígum.