Fjármálalæsi Íslendinga hrakar frá hruni
Fjármálalæsi Íslendinga hrakar samkvæmt nýrri rannsókn Stofnunar um fjármálalæsi, sem unnin var í samstarfi við sálfræðisvið viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík. Þekking, viðhorf og hegðun Íslendinga í fjármálum var rannsökuð og borin saman við rannsókn Stofnunar um fjármálalæsi frá 2008.
Meðal helstu niðurstaðna:
- Þekkingu hrakar milli ára, 53% rétt svör árið 2008 en 47% árið 2011.
- Færri halda heimilisbókhald nú en áður, en heimilisbókhald er einmitt vísbending um góða stjórnun á eigin fjármálum.
- Tuttugu prósent færri nýta yfirdrátt og hann er að meðaltali þriðjungi lægri.
- Fimmtánoghálft prósent ná ekki endum saman þriðja hvern mánuð eða oftar.
- Jafnmargir hafa miklar áhyggjur af fjármálum sínum og áður.
- Tæplega helmingur þátttakenda vill ekki taka áhættu þegar kemur að sparnaði.
Þekkingu hrakar
Þátttakendur árið 2011 voru spurðir 19 spurninga sem reyndu á almenna þekkingu á fjármálum. Meðaltal réttra svara var 11,2 af 19 mögulegum, eða 59%. Miðgildi réttra svara var 12.
Tekjur, menntun, kyn og aldur hafa sjálfstætt forspárgildi um frammistöðu þátttakenda á þekkingarhluta rannsóknarinnar. Hærri tekjur og meiri menntun spá sterkast fyrir um góða frammistöðu. Þá reynast karlar standa sig betur en konur og. Yngri (18 – 30 ára) og eldri svarendur (58 – 80 ára) skora marktækt lægra en þeir sem eru á miðjum aldri (31 – 57 ára).
Þegar þær 11 spurningar sem reyndu á almenna þekkingu og eru samaburðarhæfar milli ára eru skoðaðar, kemur í ljós að þekkingu hefur hrakað. Þannig var meðalskorið 2008 53% en 47% árið 2011 og er munurinn marktækur.
Ná ekki endum saman
Tæplega 39% aðspurðra segjast ekki hafa náð endum saman einu sinni eða oftar síðastliðna 12 mánuði, þó að 76% segist alltaf borga reikninga á réttum tíma.
Samtals náðu 15,5% þátttakenda ekki endum saman 4 sinnum eða oftar síðastliðna 12 mánuði og rúmlega 5% þátttakenda náðu aldrei endum saman. Þeir sem ekki náðu endum saman sögðust flestir hafa lent tvisvar í því undanfarna 12 mánuði, en meðaltalið var rúmlega 4 sinnum. Einhleypir lentu oftar í þessum aðstæðum að meðaltali heldur en einstaklingar í sambúð og þá sérstaklega einhleypar konur eða sex sinnum að meðaltali á síðastliðnum 12 mánuðum, einhleypir karlar fimm sinnum en einstaklingar í sambúð þrisvar sinnum.
Ekki var spurt um þetta árið 2008.
Heimilisbókhald
Þeim sem halda heimilisbókhald hefur fækkað til muna frá árinu 2008 eða úr 37,3% í 24,1%. Þá nýta marktækt færri sér yfirdráttarheimild í banka árið 2011 (29%) en árið 2008 (37,2%) og var meðalupphæð yfirdráttar jafnframt jafnframt marktækt lægri eða 275.000 kr. í stað 399.000 kr. áður.
Viðhorf
Ekki er marktækur munur á áhyggjum þátttakenda af eigin fjármálum á milli kannanna, en 24% hafa miklar áhyggjur, en þeir voru 22,5% áður. Þátttakendur nú telja sig hafa meiri þekkingu á fjármálum almennt en árið 2008 en munurinn reyndist ekki marktækur.
Stór hluti þátttakenda virðist alls ekki reiðubúinn að taka áhættu þegar kemur að sparnaði og fjárfestingum en 46% var voru algerlega ósammála fullyrðingunni „Ég er reiðubúin/n að taka nokkra áhættu þegar kemur að sparnaði og fjárfestingum“. Flestir gera sér jafnframt grein fyrir að fjárfesting sem veitir háa ávöxtun er líklega áhættusöm eða næstum 85% þátttakenda. Einnig gera flestir sér grein fyrir því að meiri líkur séu á að tapa hárri upphæð á fjárfestingarkosti sem býður upp á mikinn gróða eða 86% þátttakanda.
Um rannsóknina
Tekið var tilviljunarúrtak 852 Íslendinga á aldrinum 18 til 80 ára og var svarhlutfall 65%. Góð dreifing er milli kynja og búsetu. Gagnaöflun fór fram í gegnum síma dagana 2.-16. desember 2011.
Spurningalistinn samanstóð af 56 spurningum; Níu spurningum um viðhorf til fjármála, 18 spurningum um fjármálahegðun, 20 spurningum sem reyndu á almenna þekkingu á fjármálum og 9 bakgrunnsbreytum. Átján spurningar eru samanburðarhæfar milli ára; tvær um viðhorf til fjármála, 5 um fjármálahegðun og 11 spurningar um almenna þekkingu á fjármálum.
Nánari upplýsingar um skýrsluna er hægt að nálgast á vef Stofnunar um fjármálalæsi: www.fé.is.