Hótel Rauðaskriða í Aðaldal er ferðaþjónustubærmánaðarins
Það var upp úr 1970 að farið var að kynna og selja bændagistingu sem sérstakan valkost fyrir erlenda ferðamenn. Síðan eru liðin mörg ár og í dag býður Ferðaþjónusta bænda gistingu á um 180 sveitabæjum hringinn í kringum Ísland og á í viðskiptum við 150 ferðaskrifstofur og ferðaheildsala um allan heim.
Ferðaþjónusta bænda hefur tekið upp þann skemmtilega sið að tilnefna í hverjum mánuði „bæ mánaðarins“ en hann skal vera afbragð annarra bæja hvað varðar gæða- og umhverfismál, vöruþróun og þjónustu við viðskiptavini. Val á bæ mánaðarins byggist á umsögnum gesta og mati starfsfólks skrifstofu Ferðaþjónustu bænda.
Fyrsti bær mánaðarins er Hótel Rauðaskriða í Aðaldal sem er staðsett í fögru og friðsælu umhverfi, 28 km. frá Húsavík. Það þykir hafið yfir allan vafa að þar á bæ fái ferðamenn afbragðs þjónustu og í gegnum árin hafa gestgjafar sýnt mikinn metnað í að halda gististaðnum og umhverfi hans hreinu og snyrtilegu auk þess sem allur aðbúnaður er til fyrirmyndar.
Hótel Rauðaskriða er Svansvottað en Svanurinn er hið opinbera norræna umhverfismerki. Ströngum umhverfisstöðlum er fylgt á hótelinu sem undirstrikar metnað gestgjafa á sviði gæða - og umhverfismála.
Á Hótel Rauðaskriðu og í nágrenni þess er í boði fjölbreytt afþreying. Mikil vinna hefur verið lögð í að kortleggja göngu – og hjólaleiðir í nágrenninu og geta gestir fengið hjól að láni hjá hótelinu.
Fuglalíf á svæðinu er fjölbreytt og nýlega hafa rekstraraðilar Hótel Rauðaskriðu útbúið fuglaskoðunarferð ætlaða erlendum ferðamönnum, í samstarfi við aðra ferðaþjónustuaðila á Norðausturlandi. Skammt undan eru nokkrar af helstu náttúruperlum landsins, s.s. Goðafoss, Mývatn, Ásbyrgi og Dettifoss og stutt er í aðra afþreyingarmöguleika eins og hestaferðir, hvalaskoðun og sjóstöng.