Iðnaðarráðuneytið lánar ríkisstofnunum rafbíl
Iðnaðarráðuneytið mun nú á vormánuðum lána rafbíl af Mitsubishi MiEV gerð til þeirra ríkisstofnanna sem þess óska. Um er að ræða rafbíl sem ráðuneytið keypti árið 2010 og notaði um skamma hríð. Undanfarið hefur rafbíllinn verið staðsettur á Akureyri þar sem hann hefur verið notaður til rannsókna af Orkusetri í samvinnu við Orkustofnun. Rafbíllinn er fjögurra manna og hefur um 60-70 km drægni á einni hleðslu.
Landsspítalinn reið á vaðið og fékk bílinn lánaðan til reynslu mánudaginn 7 maí sl. Bíllinn fór í nokkrar prufukeyrslur um morguninn og var svo nýttur sem póstbíll síðar um daginn. Almenn ánægja var með bílinn og kom það starfsfólki Landspítalans á óvart hversu þægilegur hann var í keyrslu.
Björn Zoëga forstjóri Landspítala endaði svo daginn með því að prófa bílinn. Björn hafði eftirfarandi að segja eftir prufukeyrsluna. "Já, hann er nettur þessi! Verulega gaman að prófa bílinn og ánægjulegt að iðnaðarráðuneytið skuli með þessum hætti hvetja ríkisstofnanir til að taka skref í átt til til vistvænni samgangna. Við á Landspítala tökum glöð þátt í þeirri þróun enda fellur hún mjög vel að áherslum okkar í umhverfis- og samgöngumálum og þeirri sýn okkar að vera drifkraftur framþróunar."
Eins og áður hefur komið fram mun iðnaðarráðuneytið bjóða bílinn til reynsluaksturs til þeirra ríkisstofnanna sem þess óska í einn dag, Sökum drægni bílsins verður þó aðeins hægt lána hann til stofnanna á höfuðborgarsvæðinu fyrst um sinn.