Nemendur Myndlistarskólans í Reykjavík í samstarfi við þýskt postulínsfyrirtæki
Nú stendur yfir sýning á verkum nemenda Myndlistaskólans í Reykjavík í nýbyggingu Lækningaminjasafnsins á Seltjarnarnesi. Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Sheila Rietscher, markaðsstjóri postulínsverksmiðjunnar Kahla í Þýskalandi og yfirhönnuður fyrirtækisins, Barbara Schmidt ásamt fleiri gestum voru viðstaddir opnun sýningarinnar.
Tilkynnt var að fjórir nemendur skólans þær Sigríður Þóra Óðinsdóttir, Sigrún Jóna Norðdahl, Sunna Shabnam Halldórudóttir og María Worms Hjartardóttir fengju tækifæri til að taka þátt í sérstöku samstarfsverkefni skólans og verksmiðjunnar, sem gefur útvöldum nemendum færi á að útfæra og vinna verkefni sín undir handleiðslu hönnuða fyrirtækisins og kynnast framleiðsluferlinu í þriggja vikna heimsókn. Verksmiðjan Kahla og Myndlistaskólinn hafa verið í samstarfi um nokkurra ára skeið. Á heimasíðu skólans er haft eftir skólastjóranum, Ingibjörgu Jóhannsdóttur: "Samstarf Myndlistaskólans í Reykjavík og Kahla er mikilvægur þáttur í þróun og eflingu náms í keramiki á Íslandi. Með þessu samstarfi gefst nemendum mótunardeildar ómetanlegt tækifæri til að kynnast raunverulegum kröfum og starfsháttum hágæða postulínsverksmiðju. Um leið fær Kahla að kynnast íslenskum nemendum og náminu í Myndlistaskólanum í Reykjavík".