Hoppa yfir valmynd
10. maí 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Tillögur um aðgerðir til að efla leikskólastigið kynntar

Aðgerðaráætlun um fjölgun leikskólakennara og jafnari kynjahlutfall lögð fram

Graenfaninn-afhentur-leikskolanum-Skyjaborg-i-Hvalfjardarsveit
Graenfaninn-afhentur-leikskolanum-Skyjaborg-i-Hvalfjardarsveit


Þann 16. janúar 2012 skipaði mennta- og menningarmálaráðherra starfshóp til að gera tillögu um aðgerðaáætlun til að fjölga nemendum í leikskólakennaranámi og stuðla þannig að nauðsynlegri nýliðun meðal leikskólakennara.   Starfshópnum var einnig falið að gera tillögur um aðgerðir til að  jafna kynjahlutföll starfsfólks í leikskólum.

Leikskólinn er skilgreindur sem fyrsta skólastigið í íslenska menntakerfinu. Mjög stór hluti barna sækja leikskóla, allt frá eins árs aldri og dvelja að meðaltali 7 klst. á dag samkvæmt skólaskýrslum Sambands íslenskra sveitarfélaga 2011 og Hagstofu Íslands.  Í lögum nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, er meðal annars gert ráð fyrir að 2/3 hlutar starfsfólks, sem sinnir menntun og uppeldi í leikskólum, séu leikskólakennarar og  að nýir leikskólakennarar þurfa að hafa lokið meistaraprófi til að geta fengið leyfisbréf.  Erfiðlega hefur gengið að ná þessu marki og um þessar mundir er að meðaltali á landsvísu, einungis um 1/3 starfsfólks, sem sinnir menntun og uppeldi í leikskólum, með leikskólakennararéttindi, sem jafngildir um 1546 stöðugildum, samkvæmt Skólaskýrslu Sambands íslenskra sveitarfélaga 2011.

Samkvæmt upplýsingum frá kennaramenntunarstofnunum hefur  dregið úr aðsókn í leikskólakennaranám síðustu ár. Sá fjöldi einstaklinga, sem nú er við nám í leikskólakennarafræðum, er það lítill að ljóst er að fjöldi útskrifaðra mun ekki standa undir nauðsynlegri endurnýjun leikskólakennara til að uppfylla framangreint hlutfallsákvæði (2/3) laga nr. 87/2008.  Ljóst er að grípa þarf til aðgerða til að ná settu markmiði laganna í samstarfi allra hagsmunaaðila sem að málinu koma.

Leikskólastigið er eina skólastigið á Íslandi sem líður fyrir skort á  kennurum en úr því má meðal annars bæta með því að nýta fjölbreyttan bakgrunn leiðbeinenda og skapa þeim aukna möguleika til að mennta sig sem leikskólakennara.

Vegna þess hve mikið er í húfi þarf strax  að grípa til sértækra aðgerða sem fela í sér hvatningu til framangreinds hóps og annarra um að leggja fyrir sig leikskólakennaranám. Skerpa þarf ímynd leikskólakennara sem ábyrgir sérfræðingar í uppeldi og menntun ungra barna og leggja áherslu á inntak leikskólakennaranámsins, og á að kynna leikskólann sem  grunn að íslensku menntakerfi.

Fjöldi erlendra  rannsóknarniðurstaðna sýna að leikskólar með vel menntuðu starfsfólki geta skipt sköpum fyrir námsframvindu allra barna og geta dregið úr mismunun vegna kyns, uppruna, menntunarstig foreldra og annarra þátta.

Helstu tillögur starfshópsins eru þessar:

Nýliðun

Skammtímamarkmið

  • Umsóknum í  leikskólakennaranám fjölgi  um fjórðung næstu 5 árin.
  • 180 leikskólakennarar útskrifist á ári eftir 2020.

Langtímamarkmið

  • Nýliðun leikskólakennara standi undir endurnýjun starfsfólks árið 2050.

Fjölgun karlmanna í leikskólum

Skammtímamarkmið

  • Fjölga umsóknum karlmanna í 6 – 8 umsóknir á ári fyrir 2020.
  • Fjölga útskrifuðum körlum í 6 – 8 á ári fyrir árið 2025.

Langtímamarkmið

  • Framtíðarsýnin er að ná fullu jafnvægi milli kynja en mælanlegt langtímamarkmið verður:
  • Karlmenn verði 10% starfsfólks leikskóla árið 2050.

Þar sem þessar aðgerðir eru umfangsmiklar og gætu verið fordæmisgefandi leggur starfshópurinn  til að  hún verði lögð fram sem aðgerðaráætlun ríkisstjórnar til 30 ára í málefnum leikskóla.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta