Hoppa yfir valmynd
11. maí 2012 Forsætisráðuneytið

Ráðuneytum fækkað úr tólf í átta

Alþingi samþykkti í dag þingsályktunartillögu forsætisráðherra um að styðja fyrirhugaða breytingu á fjölda og heitum ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Samþykktin felur það í sér að ráðuneytum mun fækka úr tíu í átta þann 1. september næstkomandi.

Í stað iðnaðarráðuneytis, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis kemur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Í stað efnahags- og viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis kemur fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Í stað umhverfisráðuneytis kemur umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Áður höfðu félags- og tryggingamálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti sameinast í velferðarráðuneyti. Sömuleiðis höfðu og dóms- og mannréttindamálaráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti sameinast í innanríkisráðuneyti 1. janúar 2011.

Markmið þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á Stjórnarráðinu á kjörtímabilinu eru að gera það skilvirkara og skerpa og skýra verkaskiptingu milli ráðuneyta. Samhliða fækkun ráðuneyta hafa verið gerðar breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands sem m.a. fela í sér aukna áherslu á samvinnu og samstarf milli ráðuneyta. Með þessum breytingum er lögð lokahönd á þá endurskipulagningu á Stjórnarráðinu sem boðuð var í upphafi kjörtímabilsins og eru þær umfangsmestu sem gerðar hafa verið frá upphafi.

Þann 1. september 2012 mun Stjórnarráðið mynda átta ráðuneyta heild sem vinnur samhent og á samhæfðari hátt en áður að þeim verkefnum sem Alþingi felur framkvæmdarvaldinu að sinna.

Við þetta tækifæri sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, í umræðu um atkvæðagreiðsluna á Alþingi í dag: „Ég er þess fullviss að þessi breyting á Stjórnarráðinu mun marka tímamót í starfsemi þess og gera stjórnsýsluna sterkari, faglegri og betri til að takast á við sín viðfangsefni, ekki síst á sviði umhverfis, auðlinda, atvinnumála og efnahagsmála. Þetta er lokahnykkurinn í umfangsmestu breytingum sem gerðar hafa verið á Stjórnarráðinu frá upphafi og staðið hafa yfir allt kjörtímabilið, en ráðuneytum hefur nú verið fækkað úr tólf í átta. Ég er sannfærð um að allar þessar breytingar á Stjórnarráðinu munu bjóða upp á mörg tækifæri til betri stjórnsýslu og bættra samskipta framkvæmdarvalds og löggjafarvalds.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta