Brúðuleikhús í alla 2. bekki grunnskóla
Verkefnisstjórn innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og velferðarráðuneytis um vitundarvakningu um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum hefur undirritað samning við brúðuleikarana Hallveigu Thorlacius og Helgu Arnalds um brúðuleiksýningu í 2. bekk allra grunnskóla á Íslandi.
Vitundarvakningin er hluti af skuldbindingum íslenskra stjórnvalda í samræmi við sáttmála Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegu ofbeldi og kynferðislegri misneytingu gegn börnum.
Sýningunni, Krakkarnir í hverfinu, er ætlað er að auðvelda börnum að segja frá kynferðislegu ofbeldi sem þau verða fyrir. Boðskapurinn er: Þú færð hjálp ef þú segir frá. Hallveig og Helga fara á vegum vitundarvakningarinnar með brúðurnar í kennslustofur til allra barna sem eru í 2. bekk grunnskóla. Farið verður í skólana nú á vordögum og haldið áfram næsta vetur.
Halla Gunnarsdóttir, formaður verkefnisstjórnar og Hallveig Thorlacius, brúðleikari undirrituðu samkomulagið. Jóna Pálsdóttir, verkefnisstjóri (lengst til hægri) og Helga Arnalds, brúðuleikari, ásamt Jóhönnu og Stefáni voru þeim til halds og trausts.
Sjá einnig frétt ráðuneytanna um vitundarvakninguna frá 27. apríl.