Heilbrigðisþjónusta á Íslandi þriðja best í Evrópu
Íslenskir sjúklingar hafa mikil réttindi, eru vel upplýstir, biðtími eftir þjónustu er stuttur í samanburði við aðrar Norðurlandaþjóðir og árangur meðferðar er með því besta sem gerist í Evrópu. Þetta er meðal þess sem fram kom þegar niðurstöður Euro Health Consumer Index árið 2012 voru kynntar á Evrópuþinginu í Brussel í dag. Ísland er í þriðja efsta sæti þeirra 34 landa sem úttektin náði til.
Vísitala notenda heilbrigðisþjónustu, svo kölluð EHCI-vísitala (e. Euro Health Consumer Index), er orðin staðlaður mælikvarði á heilbrigðisþjónustu í Evrópu og hefur verið gefin út af fyrirtækinu Health Consumer Powerhouse í Svíþjóð frá árinu 2005. Lagt er mat á 42 þætti heilbrigðisþjónustu sem flokkaðir eru í fimm eftirtalin svið sem þykja hafa mesta þýðingu fyrir notendurna:
- Réttindi sjúklinga og upplýsingar til þeirra,
- Aðgengi að (biðtími eftir) meðferð,
- Árangur meðferðar,
- Umfang og útbreiðsla þjónustu
- Lyf
Ísland hafnaði í þriðja sæti á eftir Hollandi og Danmörku í úttektinni 2012 og heldur því sæti sínu frá síðustu könnun árið 2009.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir ánægjulegt að Íslandi takist að halda stöðu sinni í efstu sætum þessa lista, þrátt fyrir erfiða aðlögun heilbrigðiskerfisins að lægri fjárveitingum: „Við getum verið stolt af heilbrigðiskerfinu okkar og það er ástæða til að þakka heilbrigðisstarfsmönnum fyrir frábær störf og þrautsegju, oft við erfiðar aðstæður. Við ætlum að halda okkar stöðu meðal þeirra landa sem bjóða upp á framúrskarandi heilbrigðisþjónustu. Við getum alltaf gert betur, sérstaklega þegar við þekkjum veikleikana og vitum hvað helst þarf að bæta.“
Í tilkynningu frá Health Consumer Powerhouse um niðurstöðurnar segir meðal annars að EHCI vísitalan sýni stöðugar framfarir í heilbrigðisþjónustu í Evrópu með bættum árangri meðferðar og almennum aðstæðum. Í ljósi þessa virðist sem neikvæð áhrif kreppunnar á heilbrigðisþjónustu hafi verið ofmetin. Engu að síður beini vísitalan sjónum að þremur þáttum sem gefa verði sérstakan gaum í tengslum við erfitt efnahagsástand. Er þar nefnt að tilhneiging sé til lengri biðtíma eftir kjöraðgerðum (kostnaðarsömum aðgerðum) í þeim ríkjum sem verst hafi orðið úti í kreppunni. Eins verði vart tilhneigingar til aukinnar kostnaðarþátttöku sjúklinga í heilbrigðisþjónustu og að aðgengi að nýjum lyfjum standi í stað eða hafi jafnvel minnkað.