Landmælingar Íslands stofnun ársins
Landmælingar Íslands eru stofnun ársins í flokki meðalstórra stofnana og Skipulagsstofnun varð í öðru sæti í sama flokki þegar SFR kynnti niðurstöður í vali sínu á stofnunum ársins á dögunum.
SFR – stéttarfélag í almannaþjónustu tilkynnir árlega um val sitt á stofnunum ársins og var það gert við hátíðlega athöfn á Hótel Nordica sl. föstudag. Í valinu er stofnunum skipt upp í þrjá flokka eftir fjölda starfsmanna: stórar stofnanir, meðalstórar stofnanir og litlar stofnanir. Sem fyrr segir urðu tvær af stofnunum umhverfisráðuneytisins í fyrsta og öðru sæti í valinu í flokki meðalstórra stofnana þar sem Landmælingar Íslands urðu í fyrsta sæti og Skipulagsstofnun í öðru sæti.
Sérstakur saksóknari var valinn stofnun ársins í flokki stórra stofnana og Persónuvernd í flokki lítilla stofnana. Þá var Sýslumaðurinn í Borgarnesi valinn hástökkvari ársins en raðeinkunn þeirrar stofnunar hækkaði um 66 sæti frá því í valinu í fyrra.
Flestar aðrar stofnanir ráðuneytisins tóku þátt í valinu auk ráðuneytisins en ítarlegri niðurstöður valsins í heild má finna á heimasíðu SFR.
Umhverfsiráðuneytið óskar starfsmönnum og stjórnendum Landmælinga Íslands og Skipulagsstofnunar innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur.