Sögueyjan Ísland sýnd í EFTA
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og Bergdís Ellertsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri EFTA, opnuðu sýninguna Sögueyjan Ísland - Portrett af íslenskum samtímahöfundumí húsakynnum EFTA í Brussel í gær. Sýningin byggir á veggspjöldum með portrettljósmyndum Kristins Ingvarssonar ljósmyndara af á þriðja tug íslenskra rithöfunda og viðtölum Péturs Blöndal blaðamanns við þá um hvað í íslenskum söguarfi hafi helst haft áhrif á listsköpun þeirra. Bókmenntakynningin er liður í viðleitni sendiráðs Íslands í Brussel að efla áhuga fyrir Íslandi og íslenskri menningu í Belgíu, sem og í umdæmisríkjunum Hollandi og Lúxemborg. Sýningin hefur þegar verið sýnd í helstu stofnunum Evrópusambandsins, og hefur jafnframt verið sett upp í öðrum löndum.
Við opnunina spilaði Björk Óskarsdóttir, fiðluleikari, íslensk sönglög eftir Sigfús Halldórsson og Atla Heimi Sveinsson. Jafnframt var sýnd ný heimildarmynd eftir Helgu Brekkan, Iceland's Artists and Sagas og þá lágu á annan tug þýðinga íslenskra bóka frammi. Bókaþjóðin Ísland hefur verið áberandi í Evrópu undanfarna mánuði í framhaldi af heiðursþátttöku Íslands á bókasýningunni í Frankfurt í október á síðasta ári.
Nánari upplýsingar má finna á vef Sögueyjunnar.
Myndir frá opnuninni má finna á facebook-síðu utanríkisráðuneytisins.