Stefnumörkun varðandi lagningu raflína í jörð
Á undanförnum árum hefur orkuframleiðsla á Íslandi aukist mjög og jafnframt gagnrýni á neikvæð umhverfisáhrif hennar. Einn þáttur þeirra áhrifa er sjónmengun af völdum háspennulína og hefur sú krafa orðið háværari að jarðstrengir séu nýttir í stað loftlína.
Nefnd sem skal móta stefnu um lagningu raflína í jörð í samræmi við þingsályktun Alþingis þess efnis hélt fjölsótt málþing 11. maí síðastliðinn í Háskóla Íslands. Gestir komu víða að enda er þetta málefni sem brennur á mörgum sveitarfélögum, félagasamtökum og einstaklingum. Fyrirlesarar voru Þórður Guðmundsson forstjóri Landsnets, Guðmundur Ingi Guðbrandsson framkvæmdastjóri Landverndar, Daði Már Kristófersson, dósent við Háskóla Íslands og Stefán Thors, forstjóri Skipulagsstofnunar.
Í fyrirlestri Þórðar Guðmundssonar, forstjóra Landsnets kom fram að fyrirtækið starfar í samræmi við raforkulög sem setja þá skyldu á fyrirtækið að reisa flutningskerfi á sem hagkvæmastan hátt. Kostnaður við jarðstrengi væri margfaldur á við loftlínur auk þess sem viðgerðartími væri meiri. Landsnet gæti ekki sjálft tekið ákvörðun um dýrari kosti sem leiða til hækkunar raforkuverðs heldur þyrfti að koma stefnumörkun frá stjórnvöldum til leiðbeiningar fyrir fyrirtækið.
Í máli Guðmundar Inga Guðbrandssonar, framkvæmdastjóra Landverndar kom fram að áætlanir Landsnets um uppbyggingu flutningskerfisins með 220 kV loftlínum væri ekki fyrir hinn almenna notenda heldur í þágu stóriðju og/eða vegna sæstrengs til Evrópu. Bæði jarðstrengir og loftlínur hefðu í för með sér margvísleg umhverfisáhrif m.a. jarðrask og hluti rasksins væri óafturkræft. Loftlínur hefðu hins vegar meiri sjónmengun í för með sér og verri áhrif á fuglastofna vegna áflogs. From kom í máli framkvæmdastjóra Landverndar að tæknilegir möguleikar væru á lagningu jarðstrengja á hárri spennu og því ætti ekki að horfa fram hjá þeim og nýta þar sem aðstæður leyfa. Til væri þekkt aðferðafræði „Partial undergrounding“ þar sem hluti af línuleið fer í jarðstreng og getur verið heppilegt á mörgum svæðum þar sem umhverfi eða almannahagsmunir setja lagningu loftlína skorður.
Daði Már Kristófersson, dósent við Hagfræðideild Háskóla Íslands, fjallaði um mat á umhverfiskostnaði raflínulagna. Verðmæti náttúrugæða væri ekki ákvarðað á markaðstorgum og væri því um ákveðna markaðsbresti að ræða út frá sjónarhorni hagfræðinnar. Til eru aðferðir til að leggja mat á umhverfiskostnað í slíkum tilvikum en þær eru afar vandmeðfarnar. Óraunhæft væri að krefjast verðmats á öllum raflínum en mögulega væri hægt að koma upp grunni mats á línum við ólík skilyrði.
Stefán Thors, forstjóri Skipulagsstofnunar fjallaði um skipulagsferli í tengslum við uppbyggingu raforkukerfisins og mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Það væri niðurstaða Skipulagsstofnunar að æskilegt væri að stefna og áætlanir grunnkerfa væru settar fram með samræmdari og skýrari hætti en verið hefur. Sem dæmi um misræmi í stefnumótun má nefna annars vegar Samgönguáætlun og hins vegar Kerfisáætlun Landsnets sem báðar lýsa áformum um þróun veigamikilla grunnkerfa á landsvísu en er mjög ólíkt komið fyrir í stjórnsýslunni. Landsskipulagsstefna svarar mikilli þörf fyrir samþættingu og yfirsýn.
Nefndin hefur boðað fjölmarga hagsmunaaðila á fund til sín til að fá fram sem flest viðhorf. Í gangi er opið samráðsferli þar sem öllum áhugasömum er gefinn kostur á að senda inn athugasemdir til nefndarinnar. Hægt er að koma umsögnum til starfsmanns nefndarinnar, Erlu Sigríðar Gestsdóttur á netfangið [email protected]. Tenglar á þingsályktanir Alþingis er að finna hér að neðan ásamt fyrirlestrum frá málþinginu.
Þingsályktunartillaga á 135. löggjafarþingi
Þingsályktunartillaga á 140. löggjafarþingi
Mat á umhverfiskostnaði raflínulagna
Mikilvægi umhverfisþátt í stefnumörkun um jarðstrengi
Flutningsgjaldskrá og umhverfið
Skipulag og mat á umhverfisáhrifum