Makríldeilan rædd við forseta Tékklands
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, ræddi í morgun makríldeiluna á fundi með forseta Tékklands en hann tekur þátt í opinberri heimsókn forseta Íslands til Tékklands.
Á fundinum var rætt um makríldeiluna að frumkvæði forseta Íslands og fór utanríkisráðherra rækilega yfir rök Íslendinga. Ráðherra benti á að meðal mögulegra viðskiptaþvingana, sem rætt hefur verið um á vettvangi ESB, væru aðgerðir sem brytu í bága við reglur innri markaðar Evrópusambandsins, Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og sömuleiðis þau ákvæði EES-samningsins sem Íslendingar telja að banni þær aðgerðir.
Á morgun mun utanríkisráðherra eiga sérstakan fund með Karel Schwarzenberg, utanríkisráðherra Tékklands, þar sem einnig verður farið yfir makrílmálið. Fyrr í vikunni ræddi utanríkisráðherra makríldeiluna á fundi EES-ráðsins þar sem hann gegnir formennsku af hálfu EFTA-ríkjanna. Mikil vinna er í gangi af hálfu utanríkisráðuneytisins til að koma á framfæri mótmælum Íslendinga og benda embættismönnum ESB á umrædd ákvæði EES-samningsins en kunnátta á honum er víða farin að fölna innan sambandsins. Auk funda ráðherra hafa æðstu embættismenn ráðuneytisins átt fjölmarga fundi um málið með starfsbræðrum sínum erlendis.