Hoppa yfir valmynd
18. maí 2012 Utanríkisráðuneytið

Býst við stórauknum ferðamannastraumi frá Tékklandi

Utanríkisráðherra í viðtali við tékkneska sjónvarpsstöð
Utanríkisráðherra í viðtali við tékkneska sjónvarpsstöð

 
Búast má við stórauknum ferðamannastraumi milli Íslands og Tékklands á næstu árum í kjölfar þess að Iceland Express hefur opnað nýja flugleið beint á milli Prag og Keflavíkur. Þetta sagði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, í ræðu í Prag í dag þegar hann opnaði fjölsótta ferðakaupstefnu þar sem íslensk fyrirtæki í ferðaþjónustu kynna valkosti á Íslandi fyrir tékkneskum ferðaskipuleggjendum.
 
Utanríkisráðherra sagði það athyglisvert að meðal Evrópubúa sem ferðast til Íslands væri mest aukning meðal Tékka, og nýja flugleiðin myndi stórauka þann straum. Hann sagði að bókanir af hálfu tékkneskra ferðamanna fyrir sumarið á hina nýju flugleið lofuðu mjög góðu.
 
“Í framtíðinni er líklegt að íbúar í löndunum í nágrenni við og austan Tékkland myndu nota Prag sem upphaf ferðar til Íslands, og þannig mun þetta lofsverða framtak verða til þess að auka ferðamannastraum af mun stærra svæði en Tékklandi einu,” sagði utanríkisráðherra í ræðu sinni. Hann sagði að uppgangur í ferðaþjónustu, og gott samstarf ríkisstjórnarinnar við greinina um stóraukna sókn í markaðsmálum, væri meðal ástæðna fyrir því að í efnahagsmálum væri að verða algjör viðsnúningur, sem vekti athygli víða um lönd.
 
Ferðakaupstefnan er haldin undir merkjum Íslandsstofu, sem heyrir undir utanríkisráðuneytið. Hafa starfsmenn hennar og utanríkisráðuneytisins átt viðræður við tékknesk ferðamálayfirvöld til að greiða frekar fyrir ferðamannastraumi milli landanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta