Hoppa yfir valmynd
23. maí 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ársfundur OECD, ræða ráðherra og efnahagspá fyrir Ísland

Ráðherrar OECD ríkjanna funduðu á ársfundi stofnunarinnar
Ráðherrar OECD ríkjanna funduðu á ársfundi stofnunarinnar

Ársfundur efnahags-og framfarastofnunarinnar ( OECD) stendur nú yfir í París. Oddný G. Harðardóttir, fjármálaráðherra, sækir fundinn fyrir hönd Íslands.

Á ársfundinum í dag hélt svokallað ráðherraráð OECD (Ministerial Council) fund sinn á ársfundinum en áhersla ráðherrafundarins var á hvernig hægt sé að skapa stefnu um fjölgun sjálfbærra starfa, verðmæti grænna hagkerfa og efnahagslegan bata. Í þessu samhengi ræddu ráðherrarnir meðal annars gjaldmiðlamál og mikilvægi jafnréttis kynjanna. Einnig voru kostir milliríkjasamninga um verslun og viðskipti ræddir sem og aukið samstarf við þróunarlönd og Miðausturlöndin.

Fjármálaráðherra hélt erindi á ráðherrafundinum í dag og fjallaði þar um jafnréttismál hér á landi. Í ræðunni fór ráðherra yfir stöðu jafnréttismála fyrir og eftir efnahagshrunið, mikilvægi þess að uppfræða börn og unglinga um jafnrétti strax í skólakerfinu, nauðsyn þess að viðhalda jafnrétti á vinnumarkaði og hvaða leiðir séu færar til þess í efnahagsþrengingum þegar reynslan sýni að niðurskurðaraðgerðir bitni hvað mest á konum.

Rétt er að geta þess að OECD gaf út nýja hagspá í tengslum við ársfundinn. Í spánni kemur fram bjartsýni stofnunarinnar á horfur í íslensku efnahagslífi. Stofnunin spáir 3,1% hagvexti á þessu ári og er það nokkuð hærra en spá Seðlabanka Íslands og Hagstofunnar sem bæði spá 2,6% hagvexti á árinu. Þar munar mestu um sýn stofnunarinnar á fjárfestingar. Einnig kemur fram í hagspá OECD að verðbólga hér á landi fari minnkandi en verði þó enn yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í lok árs 2013 eða um 4% . OECD gerir ráð fyrir að atvinnuleysi verði komið niður í 5% á þeim tíma og telur mikilvægt að íslensk stjórnvöld haldi áfram að fylgja eftir áætlun um aðlögun ríkisfjármála og að lagarammi utan um fjárlagagerð sé styrktur. Auk þess verði að auka peningalegt aðhald jafnt og þétt til að styðja við áætlanir um afnám gjaldeyrishafta.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta