Hoppa yfir valmynd
24. maí 2012 Utanríkisráðuneytið

Dagur fyrir munnlegan málflutning ákveðinn 18. september nk. Framkvæmdastjórnin skilar greinargerð meðalgönguaðila

Tim Ward aðalmálflytjandi Íslands
Tim Ward aðalmálflytjandi Íslands

EFTA-dómstóllinn hefur ákveðið að munnlegur málflutningur í Icesave-málinu fari fram að loknu réttarhléi þriðjudaginn 18. september nk.

Skriflegum hluta málflutningsins verður þá lokið, en þriðja og síðasta umferð hans fer nú fram með innleggi þriðju aðila í málið.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur nú skilað greinargerð meðalgönguaðila í Icesave-málinu, en áður höfðu nokkur ríki nýtt sér rétt til að leggja fram skriflegar athugasemdir um úrlausn málsins.

Framkvæmdastjórn ESBtekur í stórum dráttum undir málflutning Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) en helstu atriðin eru þessi:

Tilskipun um innstæðutryggingar.Framkvæmdastjórnin leggur áherslu á að innstæðutryggingareglurnar séu hluti af stærri heild úrræða sem miða að því að koma í veg fyrir hrun banka og skaðlegar afleiðingar þess. Bent er á tengsl á milli reglna um bankaeftirlit og innstæðutryggingar og hvernig þessar reglur þurfi að vera samræmdar og mynda öryggisnet alls staðar á hinum innri markaði óháð því hvort um útibú í öðrum löndum eða heimalandi viðkomandi banka er að ræða.

-         Alltaf hafi verið ljóst að í mjög víðtækum bankakrísum þyrftu stjórnvöld að grípa inn  í innstæðutryggingar og það væri ekkert í tilskipuninni sem bannaði slíka aðstoð.

 -         Framkvæmdastjórnin heldur því fram að orðalag tilskipunarinnar sé skýrt og að það sé enginn vafi á því að íslenska ríkið hafi brotið gegn árangursskyldu (obligation of result) með því að innstæðueigendur fengu ekki greitt innan þess frests sem tilskipunin kveður á um. Kerfið væri þýðingarlaust ef stjórnvöldum nægði að setja upp tóma tryggingasjóði.

 -         Framkvæmdastjórnin viðurkennir að það séu bankarnir sjálfir sem eigi að fjármagna tryggingasjóðina en stjórnvöld beri ábyrgð á að það sé gert á fullnægjandi hátt og geti mætt hvaða kringumstæðum sem er.

Óviðráðanlegar aðstæður (Force Majeure). Framkvæmdastjórnin hafnar sjónarmiðum íslenskra stjórnvalda um óviðráðanlegar ytri aðstæður. Í þeim kafla er að finna tilvitnanir í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um meinta vanrækslu stjórnvalda í aðdraganda hrunsins við að hamla útrás bankanna löngu áður en alþjóðleg lausafjárkreppa felldi þá endanlega. Er látið að því liggja að stjórnvöld geti alls ekki borið fyrir sig að hrun bankanna hafi verið ófyrirsjáanlegt eða óumflýjanlegt. Íslensk stjórnvöld hafi ekki sýnt þá varkárni sem eðlilegt sé að gera kröfu til.

Mismunun.Framkvæmdastjórnin tekur undir með ESA og segir að það hafi falið í sér óbeina mismunun á grundvelli þjóðernis að flytja innstæðuskuldbindingar í útibúum á Íslandi yfir í nýju bankana án þess að grípa til sambærilegra ráðstafana fyrir útibúin í Bretlandi og Hollandi.

Íslensk stjórnvöld hafa algerlega vísað þessum málsástæðum á bug. Málflutningsteymi stjórnvalda vinnur nú í samstarfi við aðalmálflytjandann, Tim Ward, og aðra sérfræðinga að nánari athugun á greinargerð framkvæmdastjórnarinnar. Þar sem hún kemur fram fyrir meðalgöngu munu stjórnvöld eiga þess kost að svara henni skriflega og verður það gert á næstu vikum.

Eins og áður hefur komið fram hafa fjögur ríki jafnframt lýst fyrir dómstólnum viðhorfi sínu til úrlausnar málsins, tvö EFTA-ríki og þau tvö ríki sem aðild eiga að Icesave-deilunni.

Noregur og Liechtenstein taka undir sjónarmið Íslands um skilning á tilskipuninni og að ekki sé um að ræða ríkisábyrgð ef tryggingasjóðirnir reynast ófærir að fjármagna greiðslur til innstæðueigenda. Bæði ríkin vísa til tilgangs tilskipunarinnar og undirbúningsgagna sem sýni að aldrei hafi verið ætlast til þess að fjármunir skattgreiðenda standi að baki innstæðutryggingum, nema stjórnvöld taki sjálfstæða ákvörðun um að fjármagna þær með þeim hætti. Ríkin taka ekki afstöðu til meintra brota íslenska ríkisins á reglum um bann við mismunun á grundvelli þess hvar innstæður voru varðveittar.

Bretland og Holland taka hins vegar undir með Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og telja Ísland hafa brotið gegn tilskipuninni. Athugasemdir Breta eru einfaldar í sniðum og afmarkast við lögfræðilega túlkun tilskipunarinnar. Hollendingar rekja í lengra máli ýmis viðbrögð íslenskra stjórnvalda í bankahruninu – og eftir það – sem geri það ótrúverðugt að hafna nú nokkurri ábyrgð á skuldbindingum tryggingasjóðsins. Hvorugt ríkið tekur afstöðu til mismununarþáttarins. Það verður að teljast jákvætt fyrir málsstað Íslands almennt þar sem meint fórnarlömb mismununar virðast ekki sjá ástæðu til að kvarta sérstaklega yfir meðferðinni við dómstólinn.

Engin önnur aðildarríki Evrópusambandsins hafa kosið að blanda sér í málið.

 

Í Reykjavík, 24. maí 2012.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta