Hoppa yfir valmynd
25. maí 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Samráðsferli vegna aðlögunar að loftslagsbreytingum

Unglingar við sjóinn.
Unglingar við sjóinn.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sett af stað samráðsferli á netinu um hvernig bæta megi undirbúning aðlögunar að loftslagsbreytingum innan Evrópusvæðisins. Lögð er áhersla á þrjú atriði  í þessu sambandi; að auka þekkingu á áhrifum loftslagsbreytinga, að auka samvinnu milli Evrópuríkja og hagsmunaaðila og að þróa stefnu og markaðsumhverfi fyrir aðlögun innan ESB.

Samráðið og næstu skref munu byggja á fyrri vinnu ESB varðandi aðlögun að loftslagsbreytingum. Meðal annars kom út árið 2009 sk. hvítbók um aðlögunaraðgerðir innan ESB vegna loftslagsbreytinga. Þar voru lagðar til 33 aðgerðir sem að mestu hefur verið hrint í framkvæmd eða eru á döfinni.

Í framhaldinu verður sett sérstök aðlögunaráætlun ESB (EU Adaption Strategy) sem hefur það að markmiði að auka getu álfunnar til að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga, s.s. hækkandi hitastig, breytt úrkomumynstur, hækkun sjávarborðs og öfga í veðurfari. Slík áætlun gæti tiltekið ólíkar lausnir og nauðsynlegar aðgerðir sem ráðast þarf í á ólíkum stjórnsýslustigum, hvort heldur er hjá sveitarfélögum, á landsvísu eða innan vébanda ESB.

Lögð er áhersla á þrjú lykilatriði við gerð áætlunarinnar. Í fyrsta lagi að styrkja þekkingargrunninn sem áætlunin byggir á varðandi áhrif loftslagsbreytinga svo slíkar áætlanir verði eins markvissar og kostur er á. Í öðru lagi að auka samvinnu milli aðildarríkja ESB og annarra hagsmunaaðila, ekki síst hvað varðar afleiðingar loftslagsbreytinga sem ganga þvert á landamæri. Í þriðja og síðasta lagi að þróa stefnu og markaðsumhverfi fyrir aðlögun að loftslagsbreytingum innan ESB.  

Ekki er ljóst á þessu stigi hvort aðlögunaráætlunin muni hafa áhrif á löggjöf ESB en verði svo gæti það haft áhrif á íslenska löggjöf vegna EES samningsins.

Samráðsferlið stendur til 20. ágúst 2012

Samráðsferli um aðlögunaráætlun ESB vegna loftslagsbreytinga

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta