Úttekt á kennslu í stærðfræði í átta grunnskólum
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur látið gera úttekt á kennslu, námskröfum og námmati á unglingastigi í átta grunnskólum. Úttektin er gerð skv. 38. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla og þriggja ára áætlun mennta- og menningarmálaráðuneytisins um ytra mat. Þóra Þórðardóttir, grunn- og framhaldsskólakennara, og Unnar Hermannsson, ráðgjafi, sáu um framkvæmd úttektarinnar.
Skólarnir voru valdir með tilliti til stærðar, gerðar og staðsetningu. Þannig var leitast við að hafa gróna skóla í þéttbýli, skóla á landsbyggðinni, bæði til sveita og í sjávarþorpum og fjölmenna og fámenna skóla. Skólarnir eru: Árbæjarskóli, Grunnskólinn á Hellu, Grunnskóli Reyðarfjarðar, Grunnskóli Snæfellsbæjar, Heiðarskóli í Reykjanesbæ, Réttarholtsskóli, Grunnskóli Seltjarnarness og Síðuskóli á Akureyri.
Markmið með úttektinni er að afla upplýsinga um framkvæmd stærðfræðikennslu á unglingastigi í grunnskólum með hliðsjón af almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla frá 2006 og 2011 og námskrá í stærðfræði frá 2007. Úttektin beindist m.a. að kennsluháttum, námsmati, námsgögnum, árangri af kennslunni og menntun kennara. Gert er ráð fyrir að niðurstöður úttektarinnar muni gefa gagnlegar upplýsingar um fyrirkomulag, framkvæmd og árangur af stærðfræðikennslu í grunnskólum. Gagna var aflað með viðtölum, vettvangsathugunum og rafrænum könnunum auk þess sem notuð voru ýmis skrifleg gögn.
Í skýrslunni er bent á ýmsa þætti sem telja má til styrkleika stærðfræðikennslu í skólunum átta. Úttektaraðilar telja kennarana hafa sterkan faglegan grunn, segja þá jákvæða í garð starfsins og bera hag nemenda fyrir brjósti. Viðhorf stjórnenda og forráðamanna til námsgreinarinnar er einnig jákvætt. Þjónusta er góð við nemendur sem eiga í erfiðleikum með að læra stærðfræði og til er nýtt námsefni sem þjónar vel markmiðum aðalnámskrár. Meðal veikleika er nefnt að aðalnámskrá fyrir stærðfræði frá 2007 sé of ítarleg, nýju námsefni þurfi að fylgja betur eftir, lítil þjónusta sé við námslega sterka nemendur og endur/símenntun sé ábótavant, og að auka megisamstarf stærðfræðikennara um kennslu og þróunarstarf. Eftirfarandi kom fram um námskrár, kennslu, námsmat, samræmd könnunarpróf, námsgögn og endurmenntun kennara:
Námskrá
Af viðtölum úttektaraðila mátti ráða að kennarar eyddu umtalsverðum tíma í að fullvissa sig um að kennslan fullnægði markmiðum aðalnámskrár. Þar sem um afar umfangsmikinn lista markmiða er að ræða telja úttektaraðilar það vera umhugsunarefni hvort aðalnámskrá kunni að vera of ítarleg, t.d. með hliðsjón af áherslu sömu aðalnámskrár á fjölbreytni kennsluhátta. Fram kom í máli bæði stærðfræðikennara og stjórnenda að þeir vonuðust til að nýr stærðfræðihluti aðalnámskrár sem nú er í vinnslu verði almennari og gefi kennurum meira svigrúm til að uppfylla markmið menntayfirvalda.
Kennsla
Sérstaka athygli úttektaraðila vöktu bekkjastærðir í stærðfræðikennslu, en almennt var ekki um mjög fjölmenna hópa að ræða. Meðalstærð bekkja í þeim tímum sem úttektaraðilar sátu var 17,3 nemendur. Einstaklingsvinna nemenda í verkefna- eða vinnubækur er algengasta form kennslustunda í þátttökuskólum. Samkvæmt könnun sem úttektaraðilar gerðu meðal kennara í úttektinni, töldu 20% stærðfræðikennaranna sig beita fjölbeyttum kennsluháttum mjög eða frekar mikið og 73% nokkuð mikið. Jafnframt telja kennarar sig beita fjölbreyttu námsmati. Í nokkrum skólum eru nemendur með sérstaka bók, sem ýmist er kölluð glósubók, leiðarbók eða reglubók. Í þessa bók skrifa nemendur niður það sem fram kemur í innlögn kennara. Þar sem þetta er viðhaft virðast nemendur fylgjast betur með innlögn að mati úttektaraðila.
Námsmat
Að mati úttektaraðila er námsmat í stærðfræði á unglingastigi fjölbreytt í öllum þeim grunnskólunum. Hvergi er eingöngu beitt hefðbundnum lokaprófum í lok annar við námsmatið. Að mati úttektaraðila fellur námsmat í stærðfræði vel að kröfum um símat í stað fárra lokaprófa
Endurmenntun og samstarf stærðfræðikennara
Í viðtölum úttektaraðila við kennara kom fram að þeim finnst skorta nokkuð á framboð til endurmenntunar og finna fyrir miklum breytingum síðustu ár. Tækifæri til endurmenntunar virðast vera eitt af þeim atriðum sem skorin hafa verið niður í kjölfar efnahagskreppunnar. Fram kom í máli stjórnenda og kennara að þeir séu vakandi fyrir því að fá styrki til endurmenntunar t.d. frá samkeppnissjóðum sem og sveitarfélögum.