Afhending trúnaðarbréfs í Laos og Tælandi
Þann 22. maí s.l. afhenti Kristín A. Árnadóttir forseta Laos, Choummaly Sayasone, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands gagnvart Laos með aðsetri í Peking. Á fundi með forsetanum, þar sem viðstaddir voru ráðherrar í ríkisstjórn Laos, var rætt um samstarf ríkjanna sem aðallega hefur verið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Forsetinn lét í ljós ánægju með samstarfið sem beri vott um mikilvægi þess að smáríki standi saman og styðji sjónarmið hvers annars. Fram kom í máli forsetans að stjórnvöld stefni að því að lyfta Laos úr hópi fátækustu ríkja heims (LEDCs) fyrir árið 2020. Sendiherra gerði m.a. grein fyrir þróunaraðstoð Íslands og sýndi forseti Laos áhuga fyrir reynslu og þekkingu Íslendinga af nýtingu auðlinda, sér í lagi á sviði orkumála. Sendiherra átti jafnframt sérstakan fund með varautanríkisráðherra Laos, Bounkeuth Sangsomsack þar sem m.a. var rætt um efnahagssamstarf Suðaustur-Asíuríkja og þátttöku Laos í ASEAN. Í nóvember verður leiðtogafundur Asíu og Evrópu, ASEM, haldinn í höfuðborginni Vientiane í Laos og er gert ráð fyrir 50 sendinefndum erlendra ríkja til þátttöku.
Þann 7. maí s.l. afhenti Kristín A. Árnadóttir krónprinsi Tælands, Maha Vajiralongkorn, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands gagnvart Tælandi með aðsetri í Peking. Á fundi með krónprinsinum kom m.a. fram að Tælendingar eru Íslendingum þakklátir fyrir stuðninginn vegna flóðanna í Tælandi síðastliðið haust og fyrir það hversu vel íslenskt samfélag hefur tekið þeim fjölda Tælendinga sem búsettir eru á Íslandi. Krónprinsinn lýsti jafnframt hug á að heimsækja Ísland við fyrsta tækifæri.