Fjárþörf til brýnna verkefna á gossvæðum á Suðurlandi
Ríkisstjórnin samþykki á fundi sínum í dag 139 milljóna króna aukafjárframlög vegna brýnna verkefna á gossvæðum á Suðurlandi í kjölfar eldgosa 2010 og 2011.
Ríkisstjórnin hefur með samþykkt þessari lagt til viðbótarfjárveitingar sem nema um 1.424 m.kr. frá því að eldgosa- og hamfarahrinan hófst í maí árið 2010. Í þeirri fjárhæð er ekki meðtalinn margvíslegur kostnaður stofnana sem fjármagnaður hefur verið af árlegum fjárheimildum þeirra.
Viðbótarframlagið er samþykkt að tillögu samráðshóps ráðuneytisstjóra um viðbrögð við náttúruhamförum, en með hópnum starfa fulltrúar frá forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti og almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra. Samráðshópurinn fór í vettvangsferð á gossvæðin á Suðurlandi 8. – 9. maí sl. og voru landgræðslustjóri og vegamálastjóri með í för.
Þörf er talin á að fjármagna og styrkja nokkur brýn verkefni til endurreisnar og viðbragða á svæðinu, einkum við gerð og styrkingu varnargarða vegna flóðahættu, uppgræðslu og verkefni til að hefta öskufok, en það er talið slæmt í Fljótshverfi í Skaftárhreppi.
Viðbótarframlagið, skiptist í þrennt:
- Landgræðsla ríkisins fær 54 m.kr. vegna verkefna á gossvæðunum á þessu ári. Gert er ráð fyrir að stofnunin brúi til viðbótar 20. m.kr. kostnað af sínum fjárheimildum.
- Vegagerð ríkisins fær 75 m.kr. aukafjárframlag til fyrirbyggjandi aðgerða við varnargarða en það nemur um ¾ af áætluðum kostnaði við verkefnið á þessu ári.
- Skaftárhreppur fær 10 m.kr. styrk á þessu ári til að takast á við óvænt útgjöld sveitarfélagsins og verkefni í kjölfar Grímsvatnagossins.
Samtals eru aukafjárframlög því 139 m.kr. til Landgræðslu ríkisins, Vegagerðar ríkisins og Skaftárhrepps af fjárheimildum þessa árs.