Matur úr héraði ... þú færð ekki betri krásir!
Það er gömul saga og ný að ein allra greiðasta leiðin að hjarta ferðamannsins liggur í gegnum magann ... sérstaklega ef maturinn kemur úr því héraði sem ferðast er um.
Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Ferðamálastofa standa fyrir verkefninu Krásir - Matur úr héraði og er tilgangurinn að styrkja þróun í svæðisbundinni matargerð og matartengdri ferðaþjónustu. Þessa dagana stendur yfir umsóknarfrestur um styrki sem ætlaðir eru til að framleiða og markaðssetja matvörur sem byggja á hráefni, sögu og þekkingu frá viðkomandi svæðum.
Vonir standa til að með þessu megi m.a. auka samstarf milli fyrirtækja í ferðaþjónustu og lítilla fyrirtækja sem framleiða matvörur og auðvelda þeim sameiginlega markaðssetningu á svæðinu. Þeir, sem taka þátt í verkefninu taka þátt í fræðslu um þróun, vinnslu og meðferð matvæla og fá auk þess fjárhagslegan og faglegan stuðning við þróun á nýjum afurðum. Með verkefninu er þannig verið að auka þekkingu á gæðum og faglegri vinnu við þróun nýjum matvörum. Einstök fyrirtæki og hópar fyrirtækja, geta sótt um þátttöku í verkefninu.
Umsóknarfrestur er til og með 11. júní og geta styrkir að hámarki numið 50% af heildarkostnaði verkefnisins.
Og þá er bara að láta bragðgóða drauma rætast!