Hoppa yfir valmynd
31. maí 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ánægja með Árósasamninginn

Frá málþingi um Árósasamninginn.
Frá málþingi um Árósasamninginn.

Góðar umræður urðu í kjölfar fróðlegra framsöguerinda á málþingi um Árósasamninginn og samráð í umhverfismálum sem umhverfisráðuneytið stóð fyrir í gær. Reyndist almenn ánægja með fullgildingu samningsins hér á landi þótt bent væri á nokkur atriði sem útfæra megi frekar.

Alþingi samþykkti síðastliðið haust fullgildingu Árósasamningsins og tóku lög þar að lútandi gildi 1. janúar sl. Árósasamningurinn var gerður í Árósum í Danmörku árið 1998 og var Ísland meðal þeirra 38 ríkja sem undirrituðu hann.

Samningurinn tengir saman umhverfismál og mannréttindi þar sem hann byggist á því að fullnægjandi verndun umhverfisins sé nauðsynleg fyrir velferð mannsins og það að geta notið grundvallarmannréttinda. Samningurinn leggur skyldur á aðildarríkin að tryggja almenningi að geta haft áhrif á ákvarðanatöku sem snertir umhverfið.

Frá málþingi um Árósasamninginn.Á málþinginu fjallaði Sigríður Auður Arnardóttir, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu um þýðingu og áhrif samningsins, Róbert R. Spanó, prófessor og forseti lagadeildar Háskóla Íslands fjallaði um það hverju Árósasamningurinn breytir fyrir íslenska stjórnsýslu, Stefán Thors, forstjóri Skipulagsstofnunar fjallaði um samráð við gerð skipulags og mat á umhverfisáhrifum og Kristín Linda Árndóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar fjallaði um mikilvægi samráðs og miðlunar upplýsinga. Þá flutti Bryndís Skúladóttir, forstöðumaður umhverfismála hjá Samtökum iðnaðarins erindi um Árósasamninginn og atvinnulífið, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar fjallaði um þau réttindi sem samningurinn veitir umhverfisverndarsamtökum og getu þeirra til að sækja þau réttindi og loks fjallaði Ásta Þorleifsdóttir, jarðfræðingur og fulltrúi í stjórn Samút um væntingar útivistarsamtaka til samningsins.

Kann umhverfisráðuneytið fyrirlesurum og gestum sem sóttu málþingið bestu þakkir.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta