Brautargengiskona númer 952 útskrifast í dag ... og störfin skipta þúsundum!
Brautargengi er sérsniðið námskeið fyrir konur sem hafa viðskiptahugmynd sem þær vilja hrinda í framkvæmd með nýju eða starfandi fyrirtæki. Fyrsta útskriftin úr Brautargengi var árið 1998 og með þeim 19 sem útskrifast síðdegis í dag þá er heildarfjöldi Brautargengiskvenna orðinn 952.
Markmiðin með Brautargengi er að þátttakendurnir öðlist þekkingu á grundvallaratriðum þess að stofna fyrirtæki og rekstri þess, s.s. markaðsmálum, fjármálum og stjórnun. Þá öðlast konurnar dýrmæt tengsl í gegnum fyrirlesara, leiðbeinendur og aðra þátttakendur.
Samkvæmt nýlegri könnun þá fer það ekki á milli mála að Brautargengiskonurnar láta til sín taka. Góður helmingur kvennanna eru í rekstri eða fara í rekstur strax að námskeiðinu loknu og önnur 20% þeirra vinna markvisst áfram að hugmyndum sínum. Það má því reikna með að allt að 75% Brautargengiskvenna taki viðskiptaáætlunina alla leið og stofni eigið fyrirtæki. Meðalfjöldi starfa í fyrirtækjum Brautargengiskvenna liggur ekki fyrir en það má vera ljóst að hann telur mörg þúsund.
Brautargengisnámskeiðunum lýkur með því að hver þátttakandi vinnur viðskiptaáætlun byggða á sinni hugmynd. Á þessu vori hafa margar hugmyndirnar verið á sviði skapandi atvinnugreina, hönnunar, menningarstarfsemi og ferðaþjónustu. Það má segja að ferðamenn séu stærsti einstaki markhópurinn, hvort sem til sölu eru vörur eða þjónusta; fallegir gripir, fatnaður, gisting, skemmtun eða jafnvel „skemmtimenntun“. Meðal kvennanna sem nú útskrifast hafa nokkrar þegar hlotið hvatningu í formi styrkja, til að mynda frá Átaki til atvinnusköpunar og Frumkvöðlastuðningi. Eftirspurnin að komast á Brautargengisnámskeið er mikil og það er sérlega ánægjulegt að það sé svona mikill sóknarhugur í íslenskum konum sem vilja í auknum mæli stofna til eigins atvinnureksturs.
Brautargengisnámskeiðin eru haldin af Nýsköpunarmiðstöð Íslands og á heimasíðu hennar eru upplýsingar um næstu námskeið.