Hoppa yfir valmynd
31. maí 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skýrsla fjármálaráðherra um áhrif lækkunar höfuðstóls húsnæðislána lögð fram á Alþingi

Fréttatilkynning nr. 5/2012

Með beiðni á þskj. 409 frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni og fleiri alþingismönnum var þess óskað að fjármálaráðherra flytti Alþingi skýrslu um áhrif lækkunar höfuðstóls húsnæðislána.

Fjármálaráðherra fól Sveini Agnarssyni og Sigurði Jóhannessyni  hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands ásamt Benedikt Jóhannessyni tryggingastærðfræðingi að vinna skýrslu þar sem tekin væru til umfjöllunar þau atriði sem skýrslubeiðendur höfðu farið fram á enda hafði starfsfólk fjármálaráðuneytisins ekki aðstöðu til þess að sinna skýrslugerðinni þannig að fullnægjandi yrði talið.

Fjármálaráðherra hefur nú afhent Alþingi umbeðna skýrslu og hefur henni verið dreift meðal þingmanna. Jafnframt hefur skýrslan verið sett á vef ráðuneytisins enda er þar að finna ýmsar upplýsingar sem gagnlegar eru í þeirri miklu umræðu sem stendur yfir um skuldamál heimilanna og aðgerðir stjórnvalda til að draga úr þeim vanda sem mörg heimili standa í.

Þeir sérfræðingar sem skýrsluna unnu höfðu skýrslubeiðnina eina sem fyrirmynd en engin fyrirmæli frá ráðuneytinu um hvaða efnistökum þeir tækju henni. Sérfræðingar ráðuneytisins aðstoðuðu höfunda við öflun og úrvinnslu gagna, gerðu athugasemdir og komu með ábendingar meðan á vinnunni stóð.

Fjármálaráðherra telur að með þessari skýrslu sé svarað þeirri beiðni sem borin var fram og að skýrslan varpi ljósi á það efni sem henni var ætlað að gera. Hún vill hins vegar taka fram að niðurstöður og ályktanir sem skýrsluhöfundar draga eru þeirra eigin.

Helstu efnisatriði skýrslunnar eru eftirfarandi:

  • Verg 10% niðurfærsla allra húsnæðislána kostar 124 milljarða króna en 310 milljarða miðað við 25% niðurfærslu. Stærsti hluti þess kostnaðar myndi falla á Íbúðalánasjóð, eða 67-167 milljarðar eftir atvikum. Innlánsstofnanir bæru 40-99 milljarða og lífeyrissjóðir 18-44 milljarða.
  • Árið 2010 lagði ríkið 33 milljarða kr. eiginfé til Íbúðalánasjóðs vegna bágrar stöðu hans. Um mitt ár 2011 var eiginfjárhlutfall sjóðsins 2,4%, en samkvæmt ákvæðum í reglugerð nr. 544/2004 um Íbúðalánasjóð skal sjóðurinn hafa sem langtímamarkmið að halda eiginfjárhlutfalli sínu yfir 5,0%. Ljóst virðist af þessu að niðurfærsla lána sjóðsins um 67–167 milljarða kemur beint niður á fjárhag ríkissjóðs.
  • Kostnaður bankanna af 25% niðurfærslu húsnæðislána gengur langt á allt eiginfé sem þeir hafa í heild umfram það lágmark sem Fjármálaeftirlitið setur. Eiginfjárhlutfallið er mishátt eftir bönkum og þeir hafa lánað mismikið til húsnæðiskaupa.
  • Breytingar í stöðu almennra lífeyrissjóða við niðurfærslu koma fram í rýrari lífeyrisrétti, en ríki og sveitarfélög greiða kostnað af rýrnun opinberra lífeyrissjóða. Í árslok 2010 voru lífeyrissjóðir starfsmanna ríkis og sveitarfélaga með um þriðjung af veðlánum lífeyrissjóðanna í heild. Beinn kostnaður ríkis og sveitarfélaga af 10–25% niðurfærslu húsnæðislána lífeyrissjóða er miðað við þetta 6–15 milljarðar kr. Ekki er tekið tillit til þess kostnaðar sem lífeyrissjóðir myndu bera ef lán Íbúðalánasjóðs yrðu lækkuð.
  • Hvað áhrif á réttindaávinnslu sjóðfélaga lífeyrissjóða varðar myndi 10-25% niðurfærsla leiða til 0,84-2,1% minni réttinda sjóðfélaga í almennum lífeyrissjóðum en kostnaður vinnuveitenda opinberra starfsmanna myndi aukast.
  • Hækkun lífeyrisaldurs um 1 til 3 ár í tengslum við niðurfærsluna, miðað við sömu réttindi og nú gilda við 67 ára aldur, leiðir til 7,3%-21,3% skerðingar á lífeyrisréttindum.
  • Skýrsluhöfundar meta áhrif þess að aftengja vísitölu á lánum og réttindum næstu fimm árin miðað við verðbólguvæntingar og reynslu undanfarinna ára. Yrði 4-6% verðbólga í 5 ár ekki verðbætt rýrna verðtryggðar kröfur um 18-25%. Frysting vísitölu í fimm ár myndi hafa í för með sér að eignir Íbúðalánasjóðs rýrnuðu fast að því sem þessu nemur. Á miðju ári 2011 voru 91% af eignum hans vísitölutryggð útlán, auk þess sem sjóðurinn átti töluvert af markaðsverðbréfum, sem að hluta til eru verðtryggð. Eignasamsetning banka er önnur. Um 23% eigna þeirra eru verðtryggð útlán. Verðbólga á áðurnefndu bili í 5 ár sem ekki er verðbætt rýrir lífeyrisréttindi um 18–25%. Um tveir þriðju hlutar eignasafns lífeyrissjóðanna eru tengdir vísitölu. Fjögurra til sex prósenta verðbólga í 5 ár sem ekki yrði verðbætt rýrir eignasafn lífeyrissjóða því um 12–17%.
  • Í skýrslunni kemur fram að lækkun höfuðstóls húsnæðislána um 10-25% hefur veruleg áhrif á hagkerfið í heild sinni. Með þeirri gjörð sem hér er til umræðu yrði umtalsverðum hluta af húsnæðisskuldum landsmanna létt af húseigendum á kostnað eigenda fjármálastofnana sem eru fyrst og fremst hið opinbera, eigendur lífeyrisréttinda og eigendur bankanna. Erlendir aðilar eiga meirihluta bankanna, en ríkið á einnig stóran hlut. Ríki og sveitarfélög bera að minnsta kosti tæp 70% af kostnaðinum. Einungis yrði um tilfærslu á verðmætum að ræða þar sem þjónusta er ekki keypt á móti, líkt og þegar ríkið leggur í framkvæmdir.
  • Kostnaður hins opinbera af 10–25% niðurskurði húsnæðislána yrði á bilinu 11–41% af útgjöldum þess árið 2011 og fyrir vikið fjarlægist jöfnuður í rekstri hins opinbera.

Skýrsla fjármálaráðherra um áhrif lækkunar höfuðstóls húsnæðislána (PDF 1,8 MB), samkvæmt beiðni (Lögð fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012).

Reykjavík, 31. maí 2012

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta