Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu er örugglega með fallegustu kennslustofurnar ... enda hugsa þeir hátt!
Það er því á engan hallað þegar fullyrt er að fallegasta kennslustofan í íslensku skólakerfi sé sjálft hálendi Íslands ... og hvergi fá nemendur betri aðstæður til að tileinka sér víðsýni! Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu mun á næsta skólaári bjóða sérstakt eins árs (60 eininga) fjallamennskunám. Áhersla er á verklegt útinám á fjöllum og í óbyggðum og vettvangsferðir með kennara eða á eigin vegum. Einnig eru bóklegar námslotur sem kenndar verða í FAS. Náminu lýkur með starfsþjálfun í ferðaþjónustufyrirtæki sumarið 2013.
Meðal bóklegra námsgreina eru grasafræði, jarðfræði, jöklafræði og veðurfræði, saga fjallamennsku, skipulag, rekstur og markaðssetning ferðaþjónustufyrirtækja. Meðal verklegra greina eru kortalestur og rötun, ísklifur, þverun straumvatna, vetrarferðamennska, jöklaferðir, snjóflóðaleit og fyrsta hjálp í óbyggðum.
Og ferðaþjónustan mun án efa njóta góðs af þessari nýbreytni því að eins og allir vita er íslensk náttúra öflugasti segullinn á jafnt innlenda sem erlenda ferðamenn.