Utanríkisráðherra fundar með orkumálaráðherra Bretlands
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra átti í gær fund með Charles Hendry orkumálaráðherra Breta. Á fundinum ræddu ráðherrarnir sameiginlegan áhuga ríkjanna á auknu samstarfi í orkumálum, en Hendry er fyrsti orkumálaráðherra Breta sem heimsótt hefur Ísland.
Utanríkisráðherra fagnaði heimsókn orkumálaráðherrans og lýsti þeirri skoðun sinni að samstarf í orkumálum geti orðið ný stoð í tvíhliða samskiptum ríkjanna. Hann sagði Breta eiga umtalsverða möguleika á að nýta jarðhita þar í landi til húshitunar og nefndi í því sambandi reynslu þeirra bæði í kringum Newcastle og sömuleiðis Southampton, þar sem hitaveitur hafa verið byggðar. Þá sagði utanríkisráðherra breska vísinda- og tæknimenn standa framarlega á sviði jarðhitanýtingar. Hann kynnti nýlegt samkomulag Íslands og Alþjóðabankans um að hraða nýtingu jarðhita í Austur Afríku, sérstaklega í ríkjum sem liggja eftir sigdalnum. Utanríkisráðherra sagði Íslendinga þegar hafa tekið ákvörðun um að aðstoða Búrúndí og Eþíópíu í þessu samhengi. Ráðherra sagði samkomulag Íslands og Alþjóðabankans vera opið öðrum ríkjum og hvatti Breta til að skoða möguleika á þátttöku. Ráðherrarnir sammæltust um að næstu skref í orkumálasamstarfi þjóðanna verði að efla samskipti á milli embættismanna.
Í heimsókn orkumálaráðherrans var undirrituð viljayfirlýsing við iðnaðarráðuneytið þar sem fjórar áherslur eru sérstaklega tilteknar. Þær eru að kannað verði með möguleika á að selja raforku um sæstreng til Skotlands, uppbyggingu á hitaveitum í Bretlandi, samstarf í jarðhitamálum í Austur Afríku og um samstarf á sviði olíu- og gasleitar.