Dagur nemenda
„Dagur nemenda“ var haldinn í fyrsta sinn í Grunnskóla Vesturbyggðar föstudaginn 25. maí. Hann var haldinn að frumkvæði nemenda, sem sáu um allan undirbúning. Þeir skiptu sér í hópa og gerðu sér ýmislegt til skemmtunar. Að því loknu komu nemendur saman í sal skólans, þar sem boðið var upp á kökuhlaðborð með kræsingum, sem þeir höfðu sjálfir bakað og undirbúið í heimilisfræðitímum.
Hugmyndin að degi nemenda spratt upp þegar kennarar héldu upp á alþjóðlegan dag kennara. Nemendur, sem nú eru í 10. bekk í Patreksskóla, héldu hugmyndinni á loft og allir nemendur Grunnskóla Vesturbyggðar, sem skiptist í Patreks-, Birkimels- og Bíldudalsskóla, héldu dag nemenda formlega hátíðlegan.
Nemendurnir vonast til að dagur nemenda festist í sessi og verði jafnvel á landsvísu í framtíðinni. Þeir hafa fengið góð viðbrögð við framtaki sínu og hvatningu frá skólanum, Kennarasambandinu og mennta- og menningarmálaráðuneytinu.