Örlygur Kristfinnsson á Siglufirði er sannkallaður landstólpi
Á ársfundi Byggðastofnunar í síðustu viku var Örlygi Kristfinnssyni forstöðumanni Síldarminjasafnsins á Siglufirði afhentur Landstólpinn árið 2012. Samkvæmt orðabókinni er landstólpi einhver eða eitthvað sem eflir hag landsins – og Örlygur stendur sannarlega undir nafni í sinni heimabyggð.
Í umsögn dómnefndar segir að Örlygur hafi með störfum sínum undanfarin ár vakið athygli á Siglufirði á jákvæðan hátt. Segja má að árangurinn sem náðst hefur á Siglufirði byggi að miklu leyti á því frumkvöðlastarfi sem Örlygur hefur unnið gegnum tíðina. Hann er einn af frumkvöðlunum að Síldarminjasafni Íslands, sem hefur hlotið viðurkenningar bæði innanlands og erlendis. Örlygur hefur einnig staðið að uppbyggingu Herhússins og þeirri starfssemi sem þar fer fram. Örlygur hefur verið ötull í að gera upp gömul hús á Siglufirði sem hafa breytt ásýnd bæjarins verulega.
Þau verkefni sem Örlygur hefur komið að á Siglufirði hafa breytt ásýnd og ímynd staðarins. Hann hefur virkjað heimafólk til þátttöku í verkefnunum áhugi hans á gömlum húsum hefur smitað út frá sér og má sjá það á fjölda gamalla uppgerðra húsa á Siglufirði. Örlygur er frumkvöðull í menningarferðaþjónustu á Siglufirði. Fleiri hafa komið í kjölfarið, s.s. Þjóðlagasetrið, Herhúsið, Rauðka, Þjóðlagahátíð, Síldardagar og fl.
Eftir að Héðinsfjarðagöngin voru opnuð hefur ferðamönnum fjölgað mjög á Siglufirði enda margt að sjá og upplifa. Sem dæmi um fjölgunina má nefna að gestir Síldarminjasafnsins voru um 12 þúsund árið 2011 en fjölgaði upp í 20 þúsund árið 2011.
Í nýrri rannsókn um áhrif atvinnuuppbyggingar á sviði menningar og lista kemur fram að uppbyggingin á Siglufirði hefur haft veruleg áhrif á samfélagið – bæði efnahagsleg og félagsleg. Jákvæð ímynd, sterkari sjálfsmynd íbúa, meiri jákvæðni í samfélaginu eru atriði sem nefnd eru. Þetta hefur síðan áhrif á aðdráttarafl samfélagsins, bæði til búsetu og heimsóknar.