Hoppa yfir valmynd
7. júní 2012 Matvælaráðuneytið

Skipan viðræðunefndar um skiptingu makrílstofnsins

Sjávarútvegsráðherra hefur falið Sigurgeir Þorgeirssyni ráðuneytisstjóra í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu að leiða viðræðunefnd Íslands um skiptingu makrílstofnsins. Að viðræðunum koma auk Íslands hin strandríkin Færeyjar, Noregur, Evrópusambandið og Rússland sem veiðir sinn makríl á úthafinu. Viðræðunefndina munu einnig skipa fulltrúar frá utanríkisráðuneytinu, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og frá útvegsmönnum, auk þess sem sérfræðingar frá Hafrannsóknarstofnuninni verða til ráðgjafar. Þá hefur nefndin heimildir til að leita sér viðbótar sérfræðiaðstoðar eftir þörfum.

Með því að fela ráðuneytisstjóra sjávarútvegs- og landbúnaðaráðuneytisins að leiða viðræðunefndina og vera í forsvari fyrir hana, er mikilvægi málsins undirstrikað af Íslands hálfu. Ísland leitaði um langt árabil eftir aðild að viðræðum um skiptingu makrílstofnsins en var, þar til 2010, haldið frá borðinu þrátt fyrir réttmæta kröfu að verða viðurkennt strandríki , í hvers lögsögu makríllinn gengur.

Því miður hafa viðræður um skiptingu ekki borið árangur enn sem komið er, en Ísland undirstrikar ríkan vilja til að komast að samkomulagi, enda verði réttmætir og miklir hagsmunir þess sem strandríkis teknir með sanngjörnum hætti til greina. Árlegar göngur makrílsins í verulegum mæli inn í íslensku efnahagslögsöguna og það mikla magn sem makríllinn tekur til sín úr lífríkinu við Ísland mánuðum saman, að því viðbættu að traustar vísbendingar eru nú um að makríllinn bæði hrygni og alist upp innan íslensku lögsögunnar, gerir það allt að verkum, að Ísland hefur sterkan málstað þegar að samningaborðinu kemur.

Hér má sjá fréttina á ensku.

 

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 7. júní 2012.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta