Forsætisráðherrar Norðurlandanna: Aukin samvinna á sviði öryggismála og heilbrigðisþjónustu
Lokið er tveggja daga fundi forsætisráðherra Norðurlandanna, en hann var haldinn um borð í M/S Finnmarken, sem siglir meðfram ströndum norðurhluta Noregs.
Á fundinum var rætt um norræna samvinnu, stöðuna í Evrópu, stöðu velferðarsamfélaganna á Norðurlöndum og alþjóðamál.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sótti fundinn fyrir Íslands hönd.
Forsætisráðherrarnir samþykktu þrjár ályktanir á fundinum, um samvinnu á sviði heilbrigðismála og varnar- og öryggismála. Þá fordæmdu forsætisráðherrarnir árásir á óbreytta borgara í Sýrlandi.
Aukið samstarf á sviði heilbrigðismála
Á fundinum var ákveðið að efla samstarf Norðurlandanna á sviði heilbrigðismála. Möguleikar til aukins samstarfs og þróunar á sviði heilbrigðismála eru taldir miklir og markmiðið er að samstarfsverkefni komi öllum íbúum Norðurlandanna til góða en þeir eru um 25 milljónir. Að mati forsætisráðherranna gætu samstarfsverkefni falist í tilraunum með nýja meðferð við sjúkdómum og ný lyf, samvinnu um lækningar sem háðar eru hátækni og rannsóknum á sviði heilbrigðis- og velferðarmála.
Forsætisráðherrar Norðurlandanna ætla að fela velferðar- og heilbrigðisráðherrum þjóðanna að gera tillögur um nánara samstarf og þróun þess. Ætlunin er að þeir geri grein fyrir tillögum sínum fyrir fund forsætisráðherranna í október næstkomandi.
Aukin samvinna um öryggis- og varnarstefnu
Samvinna Norðurlandanna á sviði varnar- og öryggismála hefur aldrei verið meira en nú. Forsætisráðherrarnir telja að þessi samvinna sé farsæl fyrir Norðurlöndin og lýstu þeir áhuga á því að styrkja samstarfið enn frekar.
Forsætisráðherrarnir voru sammála um að norrænt samstarf í Afganistan hafi verið gagnlegt og að þjóðirnar gætu reitt sig á það áfram.
Forsætisráðherrarnir ræddu framlag Norðurlandanna til vöktunar og loftvarna innan íslensku lofthelginnar. Frekari ákvarðanir í þeim efnum verða teknar á vettvangi einstakra Norðurlandaþjóða.
Atlagan gegn almennum borgurum í Sýrlandi
Forsætisráðherrar Norðurlandanna fordæma árásirnar gegn íbúum Sýrlands. Þeir telja fjöldamorðin í Houla og Qubayr fullkomlega óviðunandi. Þau sýni að stjórnvöld í Sýrlandi hafi að engu sex liða friðaráætlun Kofi Annans á vegum Sameinuðu þjóðanna. Forsætisráðherrarnir krefjast þess að sýrlensk stjórnvöld breyti tafarlaust stefnu sinni og hrindi áætlun Annans í framkvæmd. Kalla verði árásarmenn til ábyrgðar enda hljóti brot gegn ákvæðum samningsins að hafa afleiðingar í för með sér. Gjáin milli lögmætra krafna almennings um lýðræði og stöðugra árása stjórnarliða útiloki pólítiska lausn málsins meðan Assad sé við völd.
Forsætisráðherrarnir hvetja stjórnarandstæðinga í Sýrlandi til þess að virða sex liða áætlun Kofi Annans og að leita friðsamlegra pólitískra lausna.
Norðurlöndin taka þátt í friðargæslu í Sýrlandi og styðja heilshugar aðstoð Annans, Sameinuðu þjóðanna og Arababandalagsins við Sýrlendinga í leitinni að friðsamlegri pólitískri lausn. Það er mikilvægt að mati forsætisráðherranna að alþjóðasamfélagið hafi breiða og samstillta aðkomu að málinu.
Forsætisráðherrarnir undirstrika þá ábyrgð sem lögð er á herðar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Fastafulltrúar ráðsins verði að grípa til skýrra aðgerða og þrýsta á stríðandi öfl í landinu. Stríðandi fylkingar megi ekki túlka aðgerðir alþjóðasamfélagsins til að koma á friði í Sýrlandi sem undanþágur til áframhaldandi valdbeitingar.